Þrír hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni í seinni skimun síðan reglur um tvöfalda skimun og fimm daga sóttkví á milli tók gildi á landamærunum fyrir um 10 dögum. Eins og gefur að skilja er þó einungis búið að skima þá sem komu hingað til lands fyrir meira en fimm dögum. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is en RÚV greindi frá því í gær að enginn hefði greinst smitaður í seinni skimun.
„Þetta er þrisvar sinnum meira en við bjuggumst við. Við miðuðum við þá 8.000 sem höfðu verið skimaðir í seinni skimun og voru búsettir á Íslandi. Þar fundum við tvo jákvæða, að vísu með mjög mikla veiru og því mjög smitandi. Þeir hefðu hvor um sig getað komið af stað nýrri bylgju af þessum faraldri,“ segir Kári.
„Þessi litla reynsla sem við höfum af seinni skimun bendir til þess að hún sé bráðnauðsynleg. Þetta er náttúrlega afskaplega lítil reynsla en það verður líka að skoða þetta allt í ljósi þess að þessi veira er að koma af stað nýrri bylgju í löndunum í kringum okkur. Það er algjör firra að halda því fram að hún sé að hverfa, að það sé engin ástæða til þess að óttast þetta. Það er mjög mikilvægt þegar menn velta því fyrir sér hversu mikið megi leggja á fólkið í landinu þegar kemur að sóttvörnum.“
Jón Ívar Einarsson, íslenskur prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, skrifaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann sagðist telja að nýtt fyrirkomulag við skimun á landamærunum þrengdi um of að frelsi fólks. Hann sagðist óttast að fólk hætti að fara eftir reglum ef gengið væri of langt í aðgerðum. Kári segir að með því að koma á reglum á landamærum séu líkur á því að setja þurfi á takmarkandi aðgerðir innanlands minnkaðar þar sem minni líkur séu á því að smit berist til landsins.
„Ég held að það skipti svolitlu máli að átta sig á því sem vinnst, ekki bara því sem tapast með þessu kerfi. Það sem vinnst er m.a. það að við getum haldið uppi skólastarfi á eðlilegan hátt, það er ekkert mikilvægara fyrir samfélagið en að hlúa vel að börnum og ungmennum í skólum. Kerfið býður upp á þann möguleika að stunda menningarstarfsemi á eðlilegan hátt. Kerfið býður upp á þann möguleika að sóttvarnir séu ekki að vega að annarri atvinnustarfsemi í landinu.“
Þá segir Kári að ef litið er til framtíðar þá séu það langtímahagsmunir ferðaþjónustunnar að „við getum barið okkur á brjóst og sagt að við séum þjóð sem hlúir vel að sínu fólki, hingað geti fólk komið vegna þess að hér séum við örugg“.
Vísir greindi fyrst frá því að þrír hefðu greinst í síðari skimun. Í þeirri frétt segir staðgengill sóttvarnalæknis að raunar séu þeir tveir. Kári segir það ekki rétt, tilfellin séu þrjú.