„Ég stökk bara af stað“

Sigrún Helga Lund stöðvaði hópslagsmál í miðbæ Reykjavíkur á laugardagskvöld.
Sigrún Helga Lund stöðvaði hópslagsmál í miðbæ Reykjavíkur á laugardagskvöld. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Helga Lund segir að hún hafi aldrei verið hrædd eða henni verið ógnað með neinum hætti þegar hún reyndi að stöðva hópslagsmál í Bankastræti á laugardagskvöld. Á myndbandi sem sýnir slagsmálin sést hvernig Sigrún hleypur í átt að hópi manna sem sparka í mann sem liggur á götunni. Mennirnir snarhætta svo þegar Sigrúnu ber að.

„Ég hugsaði ekkert út í þetta heldur stökk bara af stað þegar ég sé að þeir eru þarna að sparka í liggjandi mann. Ég spáði í raun og veru aldrei hvort ég væri í einhverri hættu eða eitthvað slíkt.“ Sigrún lýsir því svo að hún hafi aftur ætlað inn á bar í Bankastrætinu þaðan sem hún kom, Session Craft Bar, til þess að halda áfram því sem hún var að gera, en hún sat þar ásamt vinkonu sinni. Þá hafi hún séð að neðar í Bankastrætinu voru enn aðrir menn að sparka í liggjandi mann sem þá lá meðvitundarlaus í jörðinni.

„Þá hleyp ég í átt að þeim og reyni að stilla til friðar sem nokkurn veginn tekst af því þegar ég mæti þangað þá hlaupa mennirnir á brott og ég á eftir þeim en þeir stungu mig bara af. Það er þá sem ég sé að vinir eins sem liggur í jörðinni eru að stumra yfir honum og lögregla er mætt á svæðið.“

„Ég hélt bara áfram með mitt kvöld“

Spurð að því hvað maður geri eftir að hafa verið vitni að svona hópslagsmálum segir Sigrún að hún hafi bara haldið áfram með kvöldið sitt. „Ég ætla bara að setjast aftur hjá vinkonu minni þegar ég sé að það hefur slest á mig blóð úr einhverjum mannanna. Ég þvoði nú bara blóðið úr blússunni minni inni á baði og settist aftur hjá vinkonu minni.“

Sigrún, sem er Íslands- og Evrópumeistari í brasilísku jiu-jitsu bardagalistinni, virðist því ekki hafa látið neinn bilbug á sér finna eftir kvöldið. „Ég var í raun ekkert hrædd eða neitt þannig en maður er auðvitað í smá sjokki þegar maður verður vitni að svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert