Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við mbl.is að búið sé að valda gríðarlegum skaða fyrir greinina alla. Þó rýmkað verði fyrir komu farþega hingað til lands á næstunni sé ferðaþjónusta á Íslandi lömuð fram að jólum.
Hann telur skilning fólks á því hvernig komið er fyrir greininni vera að aukast. Áhrifin séu farin að koma í ljós. Í ágúst var 285 manns sagt upp í hópsögnum og var stærstur hluti þeirra hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustunni.
„Ég hef verið skýr með það að búið sé að loka íslenskri ferðaþjónustu eins og hún leggur sig,“ segir Jóhannes. „Nú er komið í ljós hvers konar áhrif það hefur að þrengja svona að heilli atvinnugrein. Fyrirtæki standa í uppsögnum og geta ekki ráðið fólkið sitt aftur vegna óvissunnar sem ríkir.“'
Jóhannes segir að þrátt fyrir að rýmkað verði fyrir komu farþega hingað til lands á næstunni muni áhrifa af þeim aðgerðum, sem gripið var til á landamærum í ágúst, gæta fram að jólum og líklega enn lengur. „Það koma ekkert hingað til lands flugfélög og ferðaskrifstofur að stunda viðskipti eins og skrúfað sé frá krana. Við erum að sjá afbókanir alveg fram að jólum og jafnvel enn lengur. Það er bara búið að loka fyrir heila atvinnugrein í fleiri mánuði.“
Fréttir bárust af því í dag að óánægja með aðgerðir stjórnvalda gegn kórónuveirunni hefði aldrei verið meiri. Jóhannes tekur undir það og segist finna fyrir gríðarlegri óánægju innan ferðaþjónustunnar.
„Það sem við erum að sjá í dag, bæði þessar uppsagnir og þessi óánægja með aðgerðir stjórnvalda, eru bara beinar afleiðingar af aðgerðum stjórnvalda, sem að mínu mati voru of harkalegar. Þetta heggur auðvitað mest í Suðurnesin þar sem mjög margir hafa lifibrauð sitt af komu erlendra ferðamanna þó að sjálfsögðu megi ekki gera lítið úr þeim vanda sem fyrirtæki annars staðar á landinu standa frammi fyrir.“
Jóhannes segist finna fyrir auknum skilningi meðal almennings á þeirri stöðu sem ferðaþjónustan er í. Fréttir af uppsögnum og lokunum ferðamannastaða veki fólk greinilega til umhugsunar. „Eðlilega eru mismunandi skoðanir meðal fólks um hvernig haga megi sóttvörnum hér á landi en mér finnst fólk átta sig sífellt betur á þeim afleiðingum sem ferðaþjónustan verður fyrir af þeim ákvörðunum sem teknar eru.“
Segir Jóhannes enn fremur að mögulega þurfi að endurskoða þær björgunaraðgerðir sem gripið var til vegna efnahagslægðarinnar sem nú gengur yfir í kjölfar kórónuveirufaraldursins. „Þær lánaaðgerðir sem í boðu voru hafa ekki verið nægilega vel nýttar. Það er spurning hvort ekki þurfi að endurskoða þessar björgunaraðgerðir eitthvað. Bjóða upp á styrki frekar en lán eða eitthvað slíkt.“
Jóhannes tekur þó fram að þeir sem þurfi að taka ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir á landamærum og annars staðar séu ekki öfundsverðir. „Það er verið að vega og meta kosti sem allir eru slæmir.“
Spurður að því hvort hann sé vongóður um að eitthvað verði losað um á landamærum á næstunni segir Jóhannes að vonandi verði eitthvað gert. „Ef það verður eitthvað losað um þá er það auðvitað jákvætt. Fólk verður samt að átta sig á að það er bara of seint að laga þetta ástand eitthvað. Skaðinn er skeður. Hér munu þúsundir vera án atvinnu um jólin. Það er bara bein afleiðing af ákvörðun stjórnvalda.“