Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og ábyrgðarmaður spálíkans Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi, segir samfélagið statt í lágri bylgju sem er frekar á niðurleið en uppleið. Hann segir aðra bylgju veirunnar allt öðruvísi en fyrri bylgju.
Thor segir ljóst að ekki séu mörg smit að komast inn í samfélagið erlendis frá, en í vetur og vor þegar faraldurinn skall fyrst á hér á landi voru fjölmargir sem smituðust erlendis og smituðu síðan aðra eftir komuna til Íslands.
„Það þarf ekkert svo mörg smit inn. Það er það sem er svo hættulegt við þessa veiru, það þarf bara einn til að koma þessu af stað.“ Thor segir jafnframt að þrátt fyrir að skimun fyrir veirunni sé ekki fullkomin nái hún að grípa langflesta. Það sé því ljóst að aðgerðir á landamærum séu að skila tilskildum árangri.
„Faraldurinn er á leiðinni upp allt í kringum okkur. Þýskaland, Frakkland, Norðurlöndin eru öll að fara upp aftur, mismunandi hátt reyndar, sum eru að fara upp alveg aftur eins og þau voru og sum minna. Þetta sést á landamærunum, það eru að koma fleiri virk smit. Ef þeim hefði bara verið hleypt í gegn hefði ég haldið að við værum að fara talsvert hraðar upp en raunin er,“ segir Thor.
Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag, að 14 einstaklingar hefðu greinst með veiruna í annarri sýnatöku eftir komuna til landsins. Þar hafa þrír greinst í seinni sýnatöku eftir að nýjar reglur tóku gildi á landamærunum 19. ágúst. Það er því ljóst að mati Þórólfs að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafi skilað árangri.
Thor tekur í svipaðan streng og Þórólfur og segir ljóst að landamæraskimun hafi komið í veg fyrir að önnur afbrigði veirunnar hafi náð að dreifast út um samfélagið.
„Íslensk erfðagreining getur rakið hvaðan þessi smit eru að koma og hvaða afbrigði þetta eru. Núna er þetta aðallega bara ein týpa veirunnar sem hefur orsakað flest þessara smita sem hafa verið að koma upp. Það sýnir okkur að skimunin á landamærum hlýtur að hafa stoppað önnur afbrigði. Það er nóg að fá bara eitt smit inn, maður getur vart ímyndað sér hvernig þetta gæti verið ef það væru kannski hundrað,“ segir Thor.
Thor segir skimunina ekki fullkomna og það séu alltaf líkur á því að smit komist í gegnum skimun eða sýnatöku.
„Þetta afbrigði sem við erum að sjá núna, það kom hingað inn erlendis frá og var óþekkt afbrigði sem hafði ekki sést hérna áður. Svona upplýsingar er svolítið magnað að hafa og það eru ekki allir sem búa við það, að vita að þetta kom að utan og þá getum við séð að skimunin stoppaði líklega fullt af smitum, þó það sleppi alltaf eitthvað í gegn.“