„Þetta er ógeðslega erfitt“

William var haldið sofandi á gjörgæslu í fimm daga.
William var haldið sofandi á gjörgæslu í fimm daga.

William Thomas Möller sýktist af kórónuveirunni í byrjun ágúst. Hann veiktist alvarlega og var honum haldið sofandi á gjörgæsludeild. Hann glímir nú við streitu og þunglyndi eftir veikindin og segir vinnuna vera rétt að hefjast að spítalavist lokinni. 

William sagði frá reynslu sinni af COVID-19-öndunarfærasjúkdómnum í færslu á Facebook. Þar segir William að vinnan sé eftir þegar spítalavistinni sé lokið. Hann hafi verið duglegur að reyna að byggja sig upp eftir að hann útskrifaðist af sjúkrahúsi. Þó hafi komið bakslag í endurhæfinguna. William leitaði tvisvar á bráðamóttökuna um helgina vegna einkenna sem hann taldi svipa til einkenna hjartaáfalls eða heilablóðfalls. Í ljós kom að William væri með alvarleg einkenni streitu og þunglyndis sem hann hefur þróað með sér eftir þá lífsreynslu sem hann gekk í gegnum í byrjun ágúst. 

Fjórða ágúst varð William mjög veikur og fór á bráðamóttökuna. Þar fékk hann súrefni en súrefnismettun var þó enn of lítil. Hann var svæfður og settur á öndunarvél svo hann fengi nægilegt súrefni. „Það liðu varla fimmtán mínútur frá því að mér var sagt þetta og þar til ég var svæfður. Ég fékk engan tíma til að undirbúa mig, skammast mín, verða reiður, hræddur eða neitt,“ skrifar William. 

William var haldið sofandi í fimm daga. Hann segist lítið muna eftir því að hafa vaknað, annað en að hann hafi verið á gjörgæslu. William man eftir að hafa séð ofsjónir, fengið martraðir sem hann honum fannst svo raunverulegar að honum finnst enn eins og þær hafi gerst í gær. Hann var síðan fluttur á almenna deild þar sem hann var í viku áður en hann var endanlega útskrifaður af sjúkrahúsi. Hann segir það sem tekur við að spítaladvölinni lokinni vera erfitt. „Þegar fólk les fréttir þá hugsar það alltaf „Vá frábært“ þegar einhver er útskrifaður af gjörgæslu eða af spítalanum. En mín upplifun er sú að þetta er ógeðslega erfitt, það er öll vinnan eftir þegar spítalavistinni er lokið,“ skrifar William. 

William brýnir fyrir fólki að fara áfram varlega, sérstaklega í samskiptum við viðkvæma hópa. 

Forvörn Mig langaði aðeins að skrifa um það sem kom fyrir mig í byrjun Ágúst. Þetta getur kannski hjálpað einhverjum...

Posted by William Thomas Möller on Sunnudagur, 30. ágúst 2020
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert