Almenn ánægja með sóttvarnaaðgerðir

Frá landamæraskimun í Leifsstöð.
Frá landamæraskimun í Leifsstöð. mbl.is//Íris

Almenningur er almennt ánægður með hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins sem tóku gildi um miðjan ágúst; 100 manna samkomutakmarkanir og tvöföld skimun þeirra sem hingað koma.

Þetta er niðurstaða könnunar sem lögð var fyrir netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands dagana 13. til 30. ágúst. Nið­ur­stöður pan­els­ins voru birtar á Vís­inda­vefnum í dag en könn­un­ina fram­kvæmdu þau Sig­rún Ólafs­dóttir, pró­fessor í félags­fræði við HÍ, Magnús Þór Torfa­son, dós­ent í við­skipta­fræði við HÍ, Jón Gunnar Bern­burg, pró­fessor í félags­fræði við HÍ, og Guð­björg Andrea Jóns­dótt­ir, for­stöðu­maður Félags­vís­inda­stofn­unar HÍ.

Spurningalisti var sendur til 500 manns á hverjum degi þar sem fólk var spurt um viðhorf þeirra til sóttvarnaaðgerða sem eru í gildi innanlands og aðgerðir sem eru í gildi á landamærunum.

Þátttakendur gátu svarað á þá leið að þeir vildu hertar aðgerðir, óbreyttar eða vægari aðgerðir.

Á þessari mynd má sjá viðhorf fólks til aðgerða innanlands …
Á þessari mynd má sjá viðhorf fólks til aðgerða innanlands eftir dögum. Ljósmynd/Vísindavefurinn

„Ef tímabilið í heild er skoðað kemur í ljós að um 13% vilja vægari aðgerðir innanlands, 24% harðari en meirihlutinn, tæp 63%, vill óbreyttar aðgerðir. Varðandi landamæri Íslands þá vilja um 13% vægari aðgerðir á landamærunum, en hærra hlutfall, eða 34%, vill harðari aðgerðir og rúmlega 50% vilja óbreyttar aðgerðir,“ segir um niðurstöðurnar á Vísindavefnum.

Þar segir að þegar fólk er beðið um að velja á milli harðari aðgerða á landamærum eða innanlands vilji tæp 67% harðari aðgerðir á landamærum. 18% kjósi slíkt innanlands og tæp 16% vilja hvorugt.

Á þessari mynd má sjá viðhorf fólks til aðgerða á …
Á þessari mynd má sjá viðhorf fólks til aðgerða á landamærum eftir dögum. Ljósmynd/Vísindavefurinn

„Það er því augljóst að mikill minnihluti Íslendinga er sammála þeim röddum sem hafa heyrst í fjölmiðlum undanfarið sem tala fyrir vægari aðgerðum,“ segir á Vísindavefnum.

Ljóst sé af niðurstöðum þessarar nokkuð umfangsmiklu könnunar að Íslendingar séu almennt frekar sáttir við aðgerðir stjórnvalda. Er það í takt við kannanir sem benda til þess að fólk hafi síst minni áhyggjur af faraldrinum nú en í vor. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert