Almenningur er almennt ánægður með hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins sem tóku gildi um miðjan ágúst; 100 manna samkomutakmarkanir og tvöföld skimun þeirra sem hingað koma.
Þetta er niðurstaða könnunar sem lögð var fyrir netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands dagana 13. til 30. ágúst. Niðurstöður panelsins voru birtar á Vísindavefnum í dag en könnunina framkvæmdu þau Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við HÍ, Magnús Þór Torfason, dósent í viðskiptafræði við HÍ, Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ.
Spurningalisti var sendur til 500 manns á hverjum degi þar sem fólk var spurt um viðhorf þeirra til sóttvarnaaðgerða sem eru í gildi innanlands og aðgerðir sem eru í gildi á landamærunum.
Þátttakendur gátu svarað á þá leið að þeir vildu hertar aðgerðir, óbreyttar eða vægari aðgerðir.
„Ef tímabilið í heild er skoðað kemur í ljós að um 13% vilja vægari aðgerðir innanlands, 24% harðari en meirihlutinn, tæp 63%, vill óbreyttar aðgerðir. Varðandi landamæri Íslands þá vilja um 13% vægari aðgerðir á landamærunum, en hærra hlutfall, eða 34%, vill harðari aðgerðir og rúmlega 50% vilja óbreyttar aðgerðir,“ segir um niðurstöðurnar á Vísindavefnum.
Þar segir að þegar fólk er beðið um að velja á milli harðari aðgerða á landamærum eða innanlands vilji tæp 67% harðari aðgerðir á landamærum. 18% kjósi slíkt innanlands og tæp 16% vilja hvorugt.
„Það er því augljóst að mikill minnihluti Íslendinga er sammála þeim röddum sem hafa heyrst í fjölmiðlum undanfarið sem tala fyrir vægari aðgerðum,“ segir á Vísindavefnum.
Ljóst sé af niðurstöðum þessarar nokkuð umfangsmiklu könnunar að Íslendingar séu almennt frekar sáttir við aðgerðir stjórnvalda. Er það í takt við kannanir sem benda til þess að fólk hafi síst minni áhyggjur af faraldrinum nú en í vor.