Segir frostavetur fram undan í atvinnulífinu

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Hari

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir frostavetur vera fram undan í atvinnulífinu vegna áhrifa af völdum kórónuveirunnar.

Mikið hefur verið um hópuppsagnir, sérstaklega í fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu. Í síðasta mánuði var vel á þriðja hundrað manns sagt upp, flestum hjá Isavia.

„Það er frostavetur í íslensku atvinnulífi fram undan. Atvinnuleysi á Íslandi er meira en við höfum séð um margra ára skeið. Atvinnuleysi mun halda áfram að aukast þar til atvinnulífið nær viðspyrnu til að skapa ný störf,“ segir Halldór Benjamín, spurður út í stöðu mála í efnahagslífinu.

Ferðamenn á ferli í miðbæ Reykjavíkur í vor.
Ferðamenn á ferli í miðbæ Reykjavíkur í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir að í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar hafi sést að allar forsendur væru í raun brostnar, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, sem og í fjölda atvinnugreina. Ein birtingarmynd þess sé að samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins megi gera ráð fyrir að verðmætasköpun til ársins 2022 dragist saman um 1.300 milljarða króna miðað við hagvaxtarforsendur fyrir Covid-19.

Þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn 

Varðandi viðbrögð við þessari erfiðu stöðu segir Halldór að ríkisstjórnin hafi stigið fram með endurskoðaðri fjármálastefnu og að annar armur hagstjórnarinnar, peningamálastjórnin, hafi einnig stigið fram með ákveðnum aðgerðum, meðal annars vaxtalækkunum enda séu vextir í sögulegu lágmarki. 

„Eftir stendur vinnumarkaðurinn, þriðji armur hagstjórnarinnar, sem hefur fullkomlega brugðist hlutverki sínu og hefur ekki gripið til neinna ráðstafana,“ greinir hann frá og segir að hvorki almenni né opinberi vinnumarkaðurinn hafi axlað þá hagstjórnarlegu ábyrgð sem honum ber. Ekki sé samt öll von úti enn þar sem endurskoðunarákvæði kjarasamninga komi til umræðu núna í september.

„Það er kýrskýrt að aðilar vinnumarkaðarins verða að axla hagstjórnarábyrgðina með einum eða öðrum hætti,“ segir Halldór, sem telur að best væri að gera það með samstarfi frekar en að annar aðilinn þvingi það fram með tilteknum hætti. „Það er ekki valkostur að stinga höfðinu í sandinn.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/ASÍ

Í ályktun ASÍ sem var birt í morgun er hugmyndum um frestun launahækkana og skerðingu launa hafnað. Kjaraskerðing er sögð ógna afkomuöryggi fólks á krepputímum, hafa skaðleg áhrif til frambúðar og muni dýpka kreppuna og lengja hana. Bætt launakjör skili sér í aukinni neyslu og auknu skattfé.

Ekki hægt að skipta því sem er ekki til 

Spurður út í ályktunina segir Halldór kjarasamninga snúast um þróun samfélagsins og uppbyggingu lífskjara til framtíðar. Lykilatriði sé að skipta þeim verðmætum sem verða til hverju sinni.

„Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að verðmætasköpunin er ekki sú sem við gerðum ráð fyrir. Það er ekki hægt að skipta því sem er ekki til,“ segir hann og nefnir að SA muni á næstunni eiga viðræður við viðsemjendur sína um forsendur lífskjarasamningsins. Best sé að þær viðræður fari að mestu leyti fram við samningaborðið og að minnstu leyti í fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert