Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vinnur nú að minnisblaði fyrir ráðherra varðandi takmarkanir innanlands, en von er á auglýsingu heilbrigðisráðherra þar að lútandi í næstu viku. Hvað varðar aðgerðir á landamærum segir Þórólfur þá ákvörðun vera í höndum stjórnvalda.
„Ég er nú að vinna í minnisblaði varðandi takmarkanir innanlands og ég tel ekki rétt að ræða það fyrr en ráðherra fær það í hendurnar. Varðandi landamærin, það er kannski öðruvísi. Ég reifaði 9 mismunandi útfærslur á skimun á landamærum og kosti og galla þeirra í sumar og það hefur ekki breyst mikið. Ég held að sú reynsla og þekking sem við höfum fengið á þessum skimunum sé gríðarlega mikilvæg og mun nýtast stjórnvöldum áfram við ákvarðanatöku. En ég er ekkert byrjaður að vinna í endurskoðun á tillögum við landamærin, það bíður eftir að hitt sé búið,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is, spurður út í stöðu mála varðandi sóttvarnatakmarkanir bæði innanlands og á landamærum.
Núgildandi fyrirkomulag á landamærum gildir til 15. september. „Hvort að fyrirkomulagið verði óbreytt eða öðruvísi eftir það er ákvörðun stjórnvalda, ráðherra og ríkisstjórnar. Hvernig mínar tillögur verða þar að lútandi liggur ekki fyrir,“ segir Þórólfur.
Niðurstöður rannsóknar sem Íslensk erfðagreining gerði á mótefnamælingum í blóði rúmlega 30.000 Íslendinga voru kynntar í grein sem birtist í The New England Journal of Medicine í gærkvöldi. Daníel Fannar Guðbjartsson, tölfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar, hefur sagt að sú ráðstöfun að skikka einungis í sóttkví fjölskyldu smitaðra og þá sem smitaði einstaklingurinn umgekkst, gangi ekki nógu langt.
Spurður út í þetta segir Þórólfur þá niðurstöðu Daníels vera áhugaverða.
„Við erum alltaf að skoða hvort sú aðferðafræði sem er notuð dugi eða dugi ekki og hvort við þurfum að breyta einhverri nálgun. Þetta eru áhugaverðar niðurstöður sem menn geta kannski túlkað á mismunandi vegu, en mér finnst rétt að benda á að sú nálgun sem við höfum notað við að setja fólk í sóttkví hefur virkað mjög vel. Þetta er áhugavert og bara einn þáttur í því sem við þurfum að skoða betur,“ segir Þórólfur.
Þórólfur var sömuleiðis einn höfunda greinarinnar sem birtist í The New England Journal of Medicine í gær. Hvað varðar niðurstöður rannsóknarinnar segir Þórólfur þær ekki koma á óvart, en greint var frá því í gær að mótefni við kórónuveirunni í þeim sem smitast minnkar ekki á fyrstu fjórum mánuðum eftir sýkingu. Þá leiddi rannsóknin í ljós að 0,9% Íslendinga hafi smitast af veirunni og 91,1% smitaðra hafi myndað mótefni.
„Þetta kemur ekkert á óvart miðað við bara smitsjúkdóma almennt, það eru ekki allir sem mynda mótefni við svona sýkingum þó að það sé yfirgnæfandi meirihluti. Það hefur líka verið talað um svokallað frumubundið ónæmissvar sem mælist ekki með mótefnamælingu heldur þarf að gera það á annan hátt. Það hefur verið talsvert birt um það erlendis og þarf líka að skoða hér, hvort fólk sem myndar ekki mótefni sé þá með frumubundið ónæmi sem myndi þá vernda það gegn sýkingum,“ segir Þórólfur og bætir við:
„Það er bara eitthvað í ónæmiskerfi og viðbrögðum einstaklingsins sem gerir það að verkum hvort einstaklingar svari með því að mynda mótefni eða með frumubundnu ónæmi. Það er bara samspil veirunnar og ónæmiskerfis einstaklinga.“
Þórólfur segir það jákvætt að engin marktæk lækkun á mótefni hafi mælst í blóði þeirra sem tóku þátt í rannsókninni á þeim fjórum mánuðum sem mældir voru.
„Það er líka athyglisvert við þessa grein að það eru einstaklingar sem hafa ekkert komist í tæri við þessa veiru sem mælast með mótefni en eru sennilega ekki með mótefni. Próf geta alltaf verið falsjákvæð eða falsneikvæð og það er það sem þarf að túlka og hafa í huga þegar svona mælingar eru gerðar,“ segir Þórólfur.