Magnað björgunarafrek - myndskeið

Verkefnið var krefjandi við erfiðar aðstæður.
Verkefnið var krefjandi við erfiðar aðstæður. Mynd/Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan birti í kvöld myndskeið sem sýnir þegar skotveiðimanni, sem hafði fest sig í leðju í Sandvatni í gærkvöldi, var komið til bjargar. Þegar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar mætti á vettvang voru björgunarsveitarmenn komnir að manninum, sem var fastur í jökulleir á hægri fæti upp fyrir ökkla.

Gæslan greinir frá því, að leirinn hafði náð að setjast þétt að fæti mannsins og var harður eins og steypa. Því var ekki með nokkru móti hægt að losa manninn með því að toga hann upp úr.

„Sigmaður og björgunarsveitarmenn urðu því að róta með fingrum í leirnum kringum ökklann við erfiðar aðstæður. Björgunarsveitarmenn voru með slöngubáta á vatninu og gat maðurinn hvílst með því að halla sér fram á blöðruna meðan á björgunarstörfum stóð. Eftir mikla vinnu náðist að koma skóflublaði undir hæl mannsins. Í kjölfarið var vogarafli beitt til að losa um fótinn. Maðurinn var orðinn mjög þrekaður og kaldur eftir volkið en hann var fastur í leðjunni í rúma þrjá tíma. Hann var hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og komið undir læknishendur í Reykjavík,“ segir í Facebook-færslu frá Gæslunni. 

Myndbandið var birt með leyfi mannsins sem vildi koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:

„Atvik sem þetta minnir mann á að hætturnar leynast víða sama hversu vel undirbúinn maður er. Sem betur fer var ég ekki einn á ferð og vorum við tveir með fullhlaðna síma, en það var heppni að símasamband var á staðnum. Það er hræðileg tilfinning að vera fastur úti í vatni og vera algerlega bjargarlaus. Þeir sem þekkja til vita að botninn í Sandvatni er leðjukenndur en þetta var eitthvað annað. Ég steig í holu fulla af leir sem varð við það eins og steypuklumpur utan um vöðluskóinn. Ég var fastur, gat ekki farið úr vöðlunum og var mikið vatn komið inn á mig þar sem ég reyndi að teygja mig niður og klóra mig út úr aðstæðum. Það hafði lítið upp á sig og því ekkert annað í stöðunni en að kalla eftir aðstoð. Það verður að teljast þvílík gæfa og forréttindi að eiga jafn öflugar björgunarsveitir og viðbragðsaðila, sem stóðu sig öll eins og hetjur. Þrátt fyrir þrautreynda menn tók það 6 toppmenn fleiri klukkutíma að moka mig upp úr þessu. Þeir voru mjög fagmannlegir og hughreystandi í þessum erfiðu aðstæðum en ég var orðinn mjög kaldur og örmagna. Það er vegna þeirra að ekki verr fór og sendi ég innilegar þakkir til allra sem komu að björgunaraðgerðum sem og hjúkrunarfólki upp á Landspítala. Ég mun svo sannarlega halda áfram að kaupa einungis flugelda af björgunarsveitunum, gerast bakhjarl og halda áfram að kaupa neyðarkarlinn – ef ekki tvo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert