„Þau brugðust okkur“

Landspítalinn er fjölmennasti vinnustaður hjúkrunarfræðinga á landinu öllu.
Landspítalinn er fjölmennasti vinnustaður hjúkrunarfræðinga á landinu öllu. mbl.is/Golli

Gerðardómur brást hlutverki sínu í kjaradeildum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins að sögn hjúkrunarfræðings hjá Landspítalanum. „Þau skiluðu ekki sínu, þau brugðust hlutverki sínu, þau brugðust okkur. Þetta afstöðuleysi var ekki í boði, það er ekki það sem við kusum um.“

Þetta segir Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum.

Gerðardómur úrskurðaði fyrr í vikunni að ríkið skuli leggja Landspítalanum til aukna fjármuni sem ráðstafa á til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga á grundvelli stofnanasamnings, alls 900 milljónir króna á ári frá september þessa árs til loka gildistíma kjarasamnings aðila. Þá skal ríkið á sama hátt leggja öðrum heilbrigðisstofnunum sínum sem hafa almenna hjúkrunarfræðinga í þjónustu sinni til aukna fjármuni sem skal ráðstafað á grundvelli stofnanasamnings. 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur niðurstöðu gerðardóms mikil vonbrigði. 

Elín segir að eftir margra mánaða kjaraviðræður án árangurs hafi hjúkrunarfræðingum verið boðið að greiða atkvæði um það hvort stéttin myndi samþykkja lífskjarasamninginn og leyfa gerðardómi ríkissáttasemjara að ákveða launahlutann, „eða hafna þessu öllu saman, fara í verkfallið, fá á okkur lög (aftur) og fá yfir okkur gerðardóm fjármálaráðherra (aftur),“ skrifar Elín í færslu á Facebook. Fleiri en færri kusu með tilboði ríkissáttasemjara og gerðardómur var skipaður. 

Niðurstaðan var sú að það væru „vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetnir hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar“. Afsakið mig, en hvernig í fjáranum hefur þessi niðurstaða áhrif á launin okkar? Þessar vísbendingar eru augljósar öllum þeim sem einhvern tímann hafa gengið inn á sjúkrastofnun, verið veikir, þótt vænt um einhvern sem hefur verið veikur, jafnvel setið við hliðina á hjúkrunarfræðingi í strætó, þetta liggur svo í augum uppi. Og lausnin við þessari merku uppgötvun er að gera eitthvað flippað og setja peninga í stofnanasamningana en ekki í launatöfluna!“ skrifar Elín. 

Hjúkrunarfræðingar svekktir og reiðir 

Elín segir hjúkrunarfræðinga þurfa grunnlaunahækkun. 

Við viljum geta lifað af laununum okkar hvort sem við vinnum nætur eða dagvinnu, á Landspítala eða á Kópaskeri! Við viljum hækkun í launatöflunni en ekki hækkun samkvæmt geðþótta hverrar stofnunar fyrir sig. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá draga sumar stofnanir fæturna við gerð stofnanasamninga. Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur ekki samið við sína hjúkrunarfræðinga síðan árið 2013 og ekki heldur Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en þar er einmitt í forsvari einn þriggja meðlima Gerðardóms. Skemmtileg tilviljun það. Og við hlæjum.

Við hlæjum og hristum höfuðið í vantrú og niðurlægingu. Við hlæjum og hristum höfuðið vegna þess að um leið og stjórnvöld treysta okkur fyrir heilsu og lífi þjóðarinnar er okkur ekki treyst fyrir okkar eigin launaseðli. Við hlæjum, við grátum, við erum svekkt, reið, öskureið,“ skrifar Elín. 
Hvernig það hlutverk sem ríkissáttasemjari fól gerðardómi gat breyst getum við ekki skilið. Hlutverk þeirra var skýrt en úrkoman var bara eitthvað Blehh. Engin niðurstaða liggur fyrir varðandi launaliðinn, við verðum á byrjunarreit í næstu kjarabaráttu. Þau skiluðu ekki sínu, þau brugðust hlutverki sínu, þau brugðust okkur. Þetta afstöðuleysi var ekki í boði, það er ekki það sem við kusum um.“

Í byrjun sumars sat ég fund í húsakynnum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þótt úti skini sólin sem lofaði bjartari...

Posted by Elín Tryggvadóttir on Miðvikudagur, 2. september 2020

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert