Viðreisn kynnti í morgun tillögur sínar um viðbrögð við efnahagsáfallinu af völdum kórónuveirunnar. Þar ber helst að nefna aukinn kraft í opinberar framkvæmdir á borð við borgarlínu en einnig úrræði til lengri tíma fyrir atvinnulausa. Kostnaður er metinn um 120 milljarðar.
Þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður þingflokksins, kynntu tillögurnar á fundi í húsnæði Viðreisnar í Ármúla. Þeim varð tíðrætt um að þótt margt væri ágætlega gert í viðbrögðum stjórnvalda væri þó hægt að gagnrýna að þær aðgerðir sem hefðu verið kynntar myndu verða of seinar í framkvæmd. Myndu byrja að virka þegar efnahagslífið væri farið að jafna sig. Þá væri augljóst að ríkisstjórnin væri ósamstiga í ákvarðanatöku sem tefði ferlið.
Í myndskeiðinu er rætt við þau Þorgerði Katrínu og Jón Steindór um áherslur Viðreisnar.
Tillögur Viðreisnar eru eftirfarandi:
Tillögur Viðreisnar eru sjö talsins og miða að því að draga úr neikvæðum áhrifum samdráttarins á líf og lífsviðurværi almennings.
1. Opinberum framkvæmdum flýtt og fjárfestingar auknar
Ráðist sé strax í þær framkvæmdir sem tilbúnar eru og flýtt þeim sem þegar eru hafnar. Áhersla þarf að vera á þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir sem til lengri tíma skapa meiri tekjur en sem nemur kostnaði. Borgarlína og aðrar framkvæmdir til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru eitt skýrasta dæmið um framkvæmdir sem uppfylla þessi skilyrði.
2. Auknir hvatar í loftslagsmálum
Loftslagsaðgerðir okkar þurfa núna að skapa tækifæri fyrir atvinnulífið. Hraða þarf orkuskiptum og draga úr mengandi losun með jákvæðum fjárhagslegum hvötum. Þannig er hægt að auka umsvif í atvinnulífinu samhliða því að búa að betri framtíð fyrir þjóðina. Einnig þarf stuðning við rannsóknir og nýsköpun á sviði grænnar tækni.
3. Tímabundin úrræði fyrir fólk í atvinnuleit
Hagkvæmast fyrir þjóðina er að skapa örugga afkomu fyrir fólk í atvinnuleit sem getur verið tilbúið og viljugt til að stökkva á tækifærin og auka við sig þekkingu eða færni. Það getum við gert með því að veita meira svigrúm til tekjuöflunar á meðan fólk er á atvinnuleysisbótum en einnig að framlengja tímabundið tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
4. Fjárfesting í lýðheilsu þjóðarinnar
Langvarandi atvinnuleysi, tekjutap, kvíði og óvissa eru líkleg til að hafa langvarandi áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks, sérstaklega ef ekki er brugðist strax við. Við þurfum að fjármagna sálfræðifrumvarpið sem allir flokkar studdu. Það þýðir ekkert fyrir fjármálaráðherra að sýna einhverja ólund. Þetta eru forvirkar aðgerðir sem skipta máli núna. Samhliða því þarf að tryggja strax viðbótarfjármagn inn í félagsþjónustu sveitarfélaganna. Við höfum ekki efni á því að láta þessi vandamál óskipt.
5. Létta álögur á fyrirtækjum
Við þurfum með öllum ráðum að ýta undir atvinnusköpun. Tímabundnar aðgerðir sem auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín starfsfólk og viðhalda störfum flýta viðspyrnu okkar gegn samdrættinum. Að hjálpa fyrirtækjum, sérstaklega litlum og meðalstórum, að standa af sér höggið með lækkun gjalda á borð við tryggingargjald, minnkar líkurnar á stórfelldum fjöldagjaldþrotum.
6. Verja störf
Samhliða atvinnusköpun þurfum við að verja þau störf sem þegar eru til staðar. Tímabundnir beinir styrkir til atvinnurekenda sem flestir búa við verulegan tekjumissi, hjálpar þeim að brúa bilið og viðhalda starfsemi og störfum.
7. Nýsköpun til lengri tíma
Fjárfestingar í nýsköpun til lengri tíma auka stöðugleika og fyrirsjáanleika í hagkerfinu. Það tekur tíma að koma sprotum og nýsköpun af stað og mikil þörf er á þolinmóðu fjármagni. Styrkir til nýsköpunar þurfa að vera til fimm ára hið minnsta.