Sævari Þór Jónssyni, lögmanni konu sem hyggst sækja skaðabætur vegna rangrar greiningar Krabbameinsfélagsins, hafa nú borist alls 12 fyrirspurnir frá öðrum krabbameinssjúklingum eða aðstandendum kvenna sem látist hafa úr krabbameini.
Sævar segist ætla að kanna grundvöll fyrir málsókn í þessum málum en staðfestir ekkert um það að svo stöddu. Um sé að ræða fyrirspurnir nema í einu tilfelli þar sem félagið hefur viðurkennt mistök sín við greiningu á sýni úr konunni.
„Ég tek það fram að þessar konur eða aðstandendur þeirra eru ekki umbjóðendur mínir, að minnsta kosti ekki enn. Ég mun kanna grundvöll fyrir einhvers konar málarekstri fyrir hönd þessara einstaklinga ef út í það fer.
Hins vegar liggur fyrir skaðabótaskylda í máli umbjóðanda míns sem fékk ranga greiningu á sínum tíma hjá Krabbameinsfélaginu, enda hefur félagið sjálft viðurkennt mistök í því máli.“
Sævar finnst „ódýr“ nálgun hjá félaginu að láta þennan eina starfsmann sem greindi sýni rangt, bera allan þunga af málinu. Ábyrgðin liggi hjá stjórnendum félagsins.
„Mér finnst mjög ódýr lending hjá Krabbameinsfélaginu að láta þennan eina starfsmann bera þungann af þessu máli. Það er auðvitað stjórn félagsins sem ber ábyrgð á þessu og gjörðum þessa starfsmanns. Það eru augljósar brotalamir í þessari starfsemi sem félagið sjálft ber ábyrgð á,“ segir Sævar í samtali við mbl.is.
„Ég tek það líka fram að það eru engar bætur sem geta lagað stöðu umbjóðanda míns. Það er hennar vilji að vekja athygli á brotalömum í starfsemi félagsins sem verði einfaldlega að laga.“
Sævar segir að honum finnist Krabbameinsfélagið svolítið tregt til svara. Félagið hafi óskað eftir samvinnu en svo hafi lítið heyrst meira.
„Félagið óskaði eftir samvinnu í þessum málum, sem er auðvitað sjálfsögð en svo hefur bara lítið sem ekkert heyrst frá þeim meira. Ég trúi ekki öðru en að félagið muni sjá sóma sinn í að vinna með þessum konum sem hafa leitað til mín og aðstandendum þeirra.“