Lög til að mæta áhrifum veirunnar samþykkt

Úr sal Alþingis.
Úr sal Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samþykktar voru á Alþingi með 57 samhljóða atkvæðum breytingar á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Lögin fela í sér vinnumarkaðsaðgerðir, þar á meðal framlengingu hlutabótaleiðarinnar.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, stigu í pontu rétt fyrir atkvæðagreiðsluna og sögðu þessar breytingar ganga of skammt.

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra sagði framtíðarsýn skorta og vanskilning ríkja á aðstæðum í samfélaginu. Við værum að „missa af gríðarlega mikilvægu tækifæri til að taka utan um alla Íslendinga, að þeir séu ekki að fara á milli“. Hún sagði flokkinn engu að síður styðja frumvarpið.

Guðmundur Ingi sagði frumvarpið sæmilegt en það hefði getað orðið frábært ef tillit hefði verið tekið til allra. Margir sitji eftir launalausir, þar á meðal listamenn. „Það er ömurlegt til þess að vita að það sé hópur sem er skilinn eftir,“ sagði hann.

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi sagði að tryggja þyrfti heimilum fyrirsjáanleika og eyða óvissu heimila. Tryggja þyrfti fólki sem þarf að lifa á lægstu laununum og lægstu bótunum einhvern fyrirsjáanleika. Hann bætti því við að það væri ömurlegt að ekki skyldi samþykkt tillaga um hækkun grunnatvinnuleysisbóta næstu tólf mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert