Ekki ríkisins að ákveða hvaða fyrirtæki lifa

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins (í miðjunni) á Alþingi.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins (í miðjunni) á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa greitt atkvæði gegn veitingu ríkisábyrgðar til Icelandair Group vegna þess að það sé ekki hlutverk ríkisins að ákveða hvaða fyrirtæki lifir og hvaða fyrirtæki deyr.

Sigríður greinir frá þessu á facebooksíðu sinni en atkvæðagreiðsla um málið fór fram á Alþingi í gærkvöldi þar sem það var samþykkt.

„Það er augljóst að veirufaraldurinn og viðbrögð við honum hafa bitnað mjög á flugfélögum, bæði þeim sem fyrir eru sterk á markaði og þeim sem ætla sér stærri hlut,“ skrifar hún og segir ástandið að einhverju leyti skapað af ríkisvaldinu bæði hér heima og erlendis. Bætir hún við að nýjasta lokun landsins virðist ekki vera í neinu samræmi við tilefnið.

„Það er að mínu mati ekki rökrétt framhald lokunar landsins að veita fé skattgreiðenda inn í flugfélag með margvíslegum hætti með þeim rökum að ætlunin sé að tryggja „traustar og óslitnar“ samgöngur til og frá landinu. Það er einfaldlega ekki hlutverk ríkisins að ákveða hvaða fyrirtæki lifir og hvaða fyrirtæki deyr,“ skrifar hún og telur nærtækara að draga úr þeim takmörkunum sem eru á ferðum til landsins í lögmætum tilgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert