Heilaþoka veldur heilabrotum

Már segir að læknar séu að skoða hvort Covid-19 geti …
Már segir að læknar séu að skoða hvort Covid-19 geti orsakað ME-sjúkdóminn en of stutt er síðan veiran fór að stjá til að slá því föstu. mbl.is/Ásdís

Hálft ár er liðið frá því að kórónuveiran smeygði sér óboðin inn fyrir landsteinana. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi náð ágætum tökum á útbreiðslu hennar hafa samt sem áður rúmlega tvö þúsund manns verið það óheppnir að fá hana og tíu hafa látist. Flestir virðast fá væga pest og ná sér ágætlega en það á þó ekki við um alla. Hópur fólks sem fékk veiruna snemma í vor glímir nú við eftirköst og nefnir fólk ýmis einkenni eins og öndunarerfiðleika, hita, þreytu, svefnleysi, svima, heilaþoku, liðverki, meltingaróþægindi og hausverk. Listinn er mun lengri.

Ofboðsleg þreyta

Erfitt er að spá um hvort einkenni þessi muni smátt og smátt hverfa eða séu komin til að vera. Vissulega veldur það áhyggjum lækna og ekki síst þeirra sem sjá ekki fyrir endann á vanlíðan sinni. Blaðamaður leitaði svara hjá einum helsta sérfræðingi á sviði smitsjúkdóma, yfirlækninum Má Kristjánssyni.

Við byrjum á að ræða einkenni veirunnar og hvort þau hafi komið læknum á óvart.
„Þessi einkenni koma kannski ekki á óvart. Veirusýkingar eru misskæðar; sumar mjög skæðar. Eitt af einkennum veirusýkinga er þreyta en það sem kemur kannski á óvart með kórónuveiruna er þessi ofboðslega þreyta sem fólk upplifir. Fólk verður svo hryllilega þreytt. Svo eru það hefðbundin öndunarfæraeinkenni, eins og særindi í hálsi og hósti. Þá verða sumir mjög veikir og það er það sem er svo uggvænlegt,“ segir hann og nefnir að veiran valdi oft öðrum einkennum, eftir því hvernig hún kemst inn í hin ýmsu líffæri.

„Þegar við skoðum nánar hvernig veiran kemst inn í líkamann sér maður að viðtakar hennar eru ekki bara í lungum, heldur geta þeir verið í hjarta og meltingarvegi. Þannig verða einkennin hjá sumum, sennilega minnihluta fólks, mjög víðtæk,“ segir hann og nefnir einnig að vírusinn geti veikt líffæri sem fyrir eru veik, en einnig getur hann einn og sér valdið usla, eins og til dæmis bólgum í hjarta.

„Í sumum tilfellum hefur veiran farið í hjartað,“ segir hann og segir þá mögulegt að fólk sitji uppi með hjartasjúkdóm eftir Covid.

Það er stóra spurningin

„Sumir einstaklingar upplifa svima, heilaþoku eða jafnvel þunglyndi og kvíða. Þetta eru samt frekar undantekningar, en ég segi þetta með fyrirvara því þar til við erum með langtímarannsóknir vitum við ekki meira,“ segir Már og vitnar í bandaríska rannsókn sem gerð var í júlí hjá bandarísku heilbrigðismálastofnuninni CDC. Í henni kemur fram að 30% fólks voru enn með heilmikil einkenni tveimur til þremur vikum eftir greiningu.

„Það er kannski ekki skrítið og fer einnig eftir aldri og hvort viðkomandi sé með undirliggjandi einkenni eða sjúkdóma. Þetta er fólkið sem ekki þurfti á spítalavist að halda,“ segir Már og veltir fyrir sér hverjir muni þjást mest af langtímaáhrifum veirunnar; fólkið sem var á spítala eða þeir sem ekki þurfti að leggja inn.

Rannsóknin sem Már vitnar í er takmörkuð að því leyti að þegar hún var gerð var aðeins stuttur tími liðinn frá því að veiran fór að stjá. Í dag er liðinn lengri tími og enn er fólk að glíma við eftirköst.

„Hvað verður þessi hópur, sem kvartar yfir einkennum þremur vikum seinna, sannarlega stór, sex, níu eða tólf mánuðum seinna? Það er stóra spurningin.“

Fólk getur verið svifaseinna

Eitt af því sem veldur læknum nokkrum heilabrotum er heilaþoka sem fólk telur upp sem eitt af einkennum Covid; jafnvel hálfu ári síðar.

„Þetta er mjög athyglisvert og ég er sannfærður um að við eigum eftir að læra mikið um líffræði líkamans á næstunni. Við erum að ganga í gegnum meiriháttar náttúrulega tilraun,“ segir hann og útskýrir tilgátu sína.

„Við erum öll að hrörna alveg frá tvítugu,“ segir Már og segir hann að Covid geti í raun hraðað þessari heilahnignun, sem sé þá hugsanlega óafturkræf.

„Ef þú ert kannski um sextugt og færð Covid, þá gæti vel verið að þú náir þér aldrei að fullu og það verði alltaf smá þoka í þér. Fólk getur verið svifaseinna,“ segir Már.
Eitt einkenni sem margir nefna er að missa bragð- og lyktarskyn.

„Það að missa bragð- og lyktarskyn gæti verið vegna staðbundinna áhrifa í munn- og nefholi. Sumir telja að fólk sé að fá heilabólgu eða bólgu í taugarnar. Kannski eru fleiri en við höfum gert okkur grein fyrir með undirklíníska heilabólgu og sitja þá eftir með einhvern skaða.“

Orsakar Covid ME-sjúkdóminn?

Lýsingar fólks á ofsaþreytu eftir Covid hljóma svolítið eins og einkenni ME-sjúkdómsins. Getur verið að fólk fái ME í kjölfar kórónuveirunnar?

„Það er mjög áhugaverð spurning og ég veit að læknar erlendis eru að fylgja eftir fólki með tilliti til þess. Einkenni á ME er meðal annars ofsaþreyta og minnkandi orkustig, þannig að fólk getur ekki unnið. Við það að reyna á sig verður fólk bara verra. Miðað við það sem við vitum og vitum ekki um ME, þá veltum við því fyrir okkur hvort Covid sé einn af þeim þáttum sem setja ME-sjúkdóminn í gang,“ segir hann.

„Það veit í raun enginn nóg um þennan sjúkdóm,“ segir Már og nefnir að mögulega liggi svarið í orkukornum í umfrymi frumna.

„Það er milljón dollara spurningin. Í orkukornum frumna leysist orka fæðunnar úr læðingi. Hvaða áhrif, ef einhver, hefur svona veirusýking á þá starfsemi? Það er ekki nóg vitað um það. En af því að þarna verður orkan til og þessir einstaklingar nefna lágt orkustig, þá gæti verið lógískt að það sé eitthvað að í orkukornunum.“

Er hægt að eiga eitthvað við þessi orkukorn; lækna þau?

„Það er erfitt. Þau eru mjög sérstakt fyrirbrigði.“

Már segir ekki að undra að fólk óttist að fá ME í kjölfar kórónuveirunnar en engin lækning hefur fundist við þeim sjúkdómi þótt margt sé gert til að lina þjáningar og minnka einkenni.

„En það er einnig til fyrirbæri sem nefnist Post Viral Fatigue og má ekki rugla saman við ME. Þá er oft miðað við að einkennin vari allt að sex mánuðum eftir veirusýkinguna. En ef einkennin fara umfram þann tíma, þá uppfylla þau skilyrði á skilgreiningu ME,“ segir Már og nefnir að þegar lengri tími er liðinn verði hægt að skilja betur afleiðingar
kórónuveirunnar og hvort hún valdi ME-sjúkdóminum.

Ítarlegt viðtal er við Má í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert