Heilaþoka veldur heilabrotum

Már segir að læknar séu að skoða hvort Covid-19 geti …
Már segir að læknar séu að skoða hvort Covid-19 geti orsakað ME-sjúkdóminn en of stutt er síðan veiran fór að stjá til að slá því föstu. mbl.is/Ásdís

Hálft ár er liðið frá því að kór­ónu­veir­an smeygði sér óboðin inn fyr­ir land­stein­ana. Þrátt fyr­ir að Íslend­ing­ar hafi náð ágæt­um tök­um á út­breiðslu henn­ar hafa samt sem áður rúm­lega tvö þúsund manns verið það óheppn­ir að fá hana og tíu hafa lát­ist. Flest­ir virðast fá væga pest og ná sér ágæt­lega en það á þó ekki við um alla. Hóp­ur fólks sem fékk veiruna snemma í vor glím­ir nú við eftir­köst og nefn­ir fólk ýmis ein­kenni eins og önd­un­ar­erfiðleika, hita, þreytu, svefn­leysi, svima, heilaþoku, liðverki, melt­ingaróþæg­indi og haus­verk. List­inn er mun lengri.

Ofboðsleg þreyta

Erfitt er að spá um hvort ein­kenni þessi muni smátt og smátt hverfa eða séu kom­in til að vera. Vissu­lega veld­ur það áhyggj­um lækna og ekki síst þeirra sem sjá ekki fyr­ir end­ann á van­líðan sinni. Blaðamaður leitaði svara hjá ein­um helsta sér­fræðingi á sviði smit­sjúk­dóma, yf­ir­lækn­in­um Má Kristjáns­syni.

Við byrj­um á að ræða ein­kenni veirunn­ar og hvort þau hafi komið lækn­um á óvart.
„Þessi ein­kenni koma kannski ekki á óvart. Veiru­sýk­ing­ar eru mis­skæðar; sum­ar mjög skæðar. Eitt af ein­kenn­um veiru­sýk­inga er þreyta en það sem kem­ur kannski á óvart með kór­ónu­veiruna er þessi ofboðslega þreyta sem fólk upp­lif­ir. Fólk verður svo hrylli­lega þreytt. Svo eru það hefðbund­in önd­un­ar­færa­ein­kenni, eins og sær­indi í hálsi og hósti. Þá verða sum­ir mjög veik­ir og það er það sem er svo uggvæn­legt,“ seg­ir hann og nefn­ir að veir­an valdi oft öðrum ein­kenn­um, eft­ir því hvernig hún kemst inn í hin ýmsu líf­færi.

„Þegar við skoðum nán­ar hvernig veir­an kemst inn í lík­amann sér maður að viðtak­ar henn­ar eru ekki bara í lung­um, held­ur geta þeir verið í hjarta og melt­ing­ar­vegi. Þannig verða ein­kenn­in hjá sum­um, senni­lega minni­hluta fólks, mjög víðtæk,“ seg­ir hann og nefn­ir einnig að vírus­inn geti veikt líf­færi sem fyr­ir eru veik, en einnig get­ur hann einn og sér valdið usla, eins og til dæm­is bólg­um í hjarta.

„Í sum­um til­fell­um hef­ur veir­an farið í hjartað,“ seg­ir hann og seg­ir þá mögu­legt að fólk sitji uppi með hjarta­sjúk­dóm eft­ir Covid.

Það er stóra spurn­ing­in

„Sum­ir ein­stak­ling­ar upp­lifa svima, heilaþoku eða jafn­vel þung­lyndi og kvíða. Þetta eru samt frek­ar und­an­tekn­ing­ar, en ég segi þetta með fyr­ir­vara því þar til við erum með lang­tím­a­rann­sókn­ir vit­um við ekki meira,“ seg­ir Már og vitn­ar í banda­ríska rann­sókn sem gerð var í júlí hjá banda­rísku heil­brigðismála­stofn­un­inni CDC. Í henni kem­ur fram að 30% fólks voru enn með heil­mik­il ein­kenni tveim­ur til þrem­ur vik­um eft­ir grein­ingu.

„Það er kannski ekki skrítið og fer einnig eft­ir aldri og hvort viðkom­andi sé með und­ir­liggj­andi ein­kenni eða sjúk­dóma. Þetta er fólkið sem ekki þurfti á spít­ala­vist að halda,“ seg­ir Már og velt­ir fyr­ir sér hverj­ir muni þjást mest af lang­tíma­áhrif­um veirunn­ar; fólkið sem var á spít­ala eða þeir sem ekki þurfti að leggja inn.

Rann­sókn­in sem Már vitn­ar í er tak­mörkuð að því leyti að þegar hún var gerð var aðeins stutt­ur tími liðinn frá því að veir­an fór að stjá. Í dag er liðinn lengri tími og enn er fólk að glíma við eftir­köst.

„Hvað verður þessi hóp­ur, sem kvart­ar yfir ein­kenn­um þrem­ur vik­um seinna, sann­ar­lega stór, sex, níu eða tólf mánuðum seinna? Það er stóra spurn­ing­in.“

Fólk get­ur verið svifa­seinna

Eitt af því sem veld­ur lækn­um nokkr­um heila­brot­um er heilaþoka sem fólk tel­ur upp sem eitt af ein­kenn­um Covid; jafn­vel hálfu ári síðar.

„Þetta er mjög at­hygl­is­vert og ég er sann­færður um að við eig­um eft­ir að læra mikið um líf­fræði lík­am­ans á næst­unni. Við erum að ganga í gegn­um meiri­hátt­ar nátt­úru­lega til­raun,“ seg­ir hann og út­skýr­ir til­gátu sína.

„Við erum öll að hrörna al­veg frá tví­tugu,“ seg­ir Már og seg­ir hann að Covid geti í raun hraðað þess­ari heila­hnign­un, sem sé þá hugs­an­lega óaft­ur­kræf.

„Ef þú ert kannski um sex­tugt og færð Covid, þá gæti vel verið að þú náir þér aldrei að fullu og það verði alltaf smá þoka í þér. Fólk get­ur verið svifa­seinna,“ seg­ir Már.
Eitt ein­kenni sem marg­ir nefna er að missa bragð- og lykt­ar­skyn.

„Það að missa bragð- og lykt­ar­skyn gæti verið vegna staðbund­inna áhrifa í munn- og nef­holi. Sum­ir telja að fólk sé að fá heila­bólgu eða bólgu í taug­arn­ar. Kannski eru fleiri en við höf­um gert okk­ur grein fyr­ir með undirklín­íska heila­bólgu og sitja þá eft­ir með ein­hvern skaða.“

Or­sak­ar Covid ME-sjúk­dóm­inn?

Lýs­ing­ar fólks á ofsaþreytu eft­ir Covid hljóma svo­lítið eins og ein­kenni ME-sjúk­dóms­ins. Get­ur verið að fólk fái ME í kjöl­far kór­ónu­veirunn­ar?

„Það er mjög áhuga­verð spurn­ing og ég veit að lækn­ar er­lend­is eru að fylgja eft­ir fólki með til­liti til þess. Ein­kenni á ME er meðal ann­ars ofsaþreyta og minnk­andi orku­stig, þannig að fólk get­ur ekki unnið. Við það að reyna á sig verður fólk bara verra. Miðað við það sem við vit­um og vit­um ekki um ME, þá velt­um við því fyr­ir okk­ur hvort Covid sé einn af þeim þátt­um sem setja ME-sjúk­dóm­inn í gang,“ seg­ir hann.

„Það veit í raun eng­inn nóg um þenn­an sjúk­dóm,“ seg­ir Már og nefn­ir að mögu­lega liggi svarið í orku­korn­um í um­frymi frumna.

„Það er millj­ón doll­ara spurn­ing­in. Í orku­korn­um frumna leys­ist orka fæðunn­ar úr læðingi. Hvaða áhrif, ef ein­hver, hef­ur svona veiru­sýk­ing á þá starf­semi? Það er ekki nóg vitað um það. En af því að þarna verður ork­an til og þess­ir ein­stak­ling­ar nefna lágt orku­stig, þá gæti verið lógískt að það sé eitt­hvað að í orku­korn­un­um.“

Er hægt að eiga eitt­hvað við þessi orku­korn; lækna þau?

„Það er erfitt. Þau eru mjög sér­stakt fyr­ir­brigði.“

Már seg­ir ekki að undra að fólk ótt­ist að fá ME í kjöl­far kór­ónu­veirunn­ar en eng­in lækn­ing hef­ur fund­ist við þeim sjúk­dómi þótt margt sé gert til að lina þján­ing­ar og minnka ein­kenni.

„En það er einnig til fyr­ir­bæri sem nefn­ist Post Viral Fatigue og má ekki rugla sam­an við ME. Þá er oft miðað við að ein­kenn­in vari allt að sex mánuðum eft­ir veiru­sýk­ing­una. En ef ein­kenn­in fara um­fram þann tíma, þá upp­fylla þau skil­yrði á skil­grein­ingu ME,“ seg­ir Már og nefn­ir að þegar lengri tími er liðinn verði hægt að skilja bet­ur af­leiðing­ar
kór­ónu­veirunn­ar og hvort hún valdi ME-sjúk­dóm­in­um.

Ítar­legt viðtal er við Má í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert