Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segir þörf á skýrri stefnu stjórnvalda í tengslum við áframhaldandi aðgerðir og viðbrögð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Friðrik skrifaði í færslu á Facebook að til bóta væri ef stjórnvöld tækju af skarið og greindu frá því hvert verið er að stefna.
Í samtali við mbl.is segir Friðrik að til umræðu hafi verið tvær meginsviðsmyndir.
„Það er annars vegar sú hugmynd að við getum kveðið niður veiruna, náð þeirri stöðu að hér séu engin smit eins og var í vor, haft landamærin lokuð svo það komi ekkert smit inn í landið, og svo tekið aftur upp lífið eins og það var fyrir faraldurinn. Fólk getur farið í vinnu, ræktina, á tónleika og nemendur geta mætt í skólann,“ segir Friðrik.
Þá segir hann hina sviðsmyndina vera að takmarkanir á landamærum verði rýmkaðar upp að vissu marki og á sama tíma verði áfram í gildi einhverjar takmarkanir innanlands.
Friðrik segist sjálfur telja hugmyndina um veirulaust Ísland útópíu.
„Ég held að við munum alltaf þurfa að viðhafa einhverjar takmarkanir á meðan veiran getur komist hingað á annað borð eða er í samfélaginu og það er nánast útilokað að koma alveg í veg fyrir það,“ segir Friðrik.
„Ég hef það á tilfinningunni að yfirvöld séu að fikra sig í átt að því að finna reglur hérna innanlands sem eru eins vægar og hægt er, en þó þannig að við höldum okkur innan við þessi mörk, að smitstuðullinn sé innan við einn,“ segir Friðrik og bætir við að skýr stefna stjórnvalda myndi einfalda margt.
Hann tekur háskólanema sem dæmi og segir að það sé mun gagnlegra fyrir þann hóp samfélagsins að vita strax hvort námið fari fram í fjarkennslu út önnina eða ekki til að draga úr óvissu. Svipað gildir um þá sem starfa í atvinnurekstri. „Ef skýr stefna kæmi fram væri hægt að gera ráðstafanir til samræmis við það og jafnframt rökræða kosti og galla.“