Hrun í fjárfestingu einkageirans

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Hari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hrun hafi orðið í fjárfestingu einkageirans hér á landi og að skoða þurfi hvaða úrræði er hægt að nota til að auka hana.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagði hann ríkisstjórnina hafa gripið til skattaráðstafana í þessu skyni. „Ég er að skoða hvort við getum ekki farið að örva aftur með slíkum hvötum fjárfestingu í einkageiranum,“ sagði hann.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kallaði eftir auknum fjárfestingum ríkisstjórnarinnar og sagði að færa þyrfti þær framkvæmdir sem settar hefðu verið á þriðja árið í fjármálastefnu mun framar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni sagði að kallað hefði verið eftir því að ríkisstjórnin gerði meira en sagði þörf á alvörudæmum. Hann sagði ríkisstjórnina hafa boðað stórauknar framkvæmdir. „Viðbótin er slík að það er orðin raunhæf spurning hversu miklu er hægt að koma út til verka á næsta ári.“

Þorgerður Katrín sagði forgangsverkefni að verja og skapa störf. Einnig nefndi hún að ríkisstjórnin hefði átt að fara strax í orkuskipti í samgöngum í ljósi loftslagsstefnu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert