Koi-fiskurinn gaf upp öndina

Koi-fiskurinn eftir að Þorkell veiddi hann upp úr ánni.
Koi-fiskurinn eftir að Þorkell veiddi hann upp úr ánni. Ljósmynd/Aðsend

Koi-fiskurinn sem Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og deildarstjóri í Húsdýragarðinum, veiddi í Elliðaám fyrir rúmri viku drapst einum til tveimur sólarhringum síðar.

„Hann var voðalega aumingjalegur blessaður. Það var eins og hann hefði orðið fyrir einhverju hnjaski í ánni. Hann bara gaf upp öndina,“ segir Þorkell, spurður út í afdrif fisksins.

Til stóð að koma honum í fóstur þar sem hann gæti svamlað um í tjörn en ekkert varð úr því.

Þorkell bætir við að fiskurinn hafi verið kominn með sár og sýkingar og hann hafi þurft að ýta við honum fljótlega eftir að hann veiddist ofan við Árbæjarstíflu.

Hann nefnir að krakkarnir í hverfinu hafi verið mjög duglegir undanfarið við að leita að fleiri koi-fiskum í Elliðaám. „Hvern langar ekki til þess að finna gullfisk? Ég vonast til að börnin í Árbænum nýtist til að skima árnar fyrir fleiri koi-fiskum því við viljum svo sannarlega ekki að þeir nái fóstfestu í Elliðaánum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert