Á opnum ársfundi Samorku í dag verður fjallað um orkuskipti í samgöngum; hvað þarf til svo Ísland standist Parísarsamning um minnkun útblásturs frá samgöngum um 37% miðað við 2018?
Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa unnið að undirbúningi orkuskipta um þó nokkurt skeið og hafa meðal annars, á vettvangi Samorku, staðið fyrir greiningum og rannsóknum til að skoða hvaða áhrif umfangsmikil orkuskipti koma til með að hafa á raforkuinnviði landsins.
Í dag kynnir Samorka niðurstöður nýrrar greiningar um orku- og aflþörf fyrir orkuskipti í samgöngum á Íslandi fyrir árið 2030. Niðurstöðurnar byggjast meðal annars á nýrri rannsókn um hleðslu rafbíla, sem gerð var með þátttöku 200 rafbílaeigenda um allt land, sem stóð yfir í heilt ár, og gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.
Auk þess að greina hvað þurfi til fyrir þau opinberu markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum sem felast í Parísarsamningnum var einnig skoðað hvað þyrfti til ef ákveðið væri að hætta alfarið að nota jarðefnaeldsneyti árið 2030.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinu streymi hér.