Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, harma ummæli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að ekki komi til greina að gera reglugerðarbreytingar til þess að bjarga einstaka fjölskyldum. Samtökin segja ummælin einkennast af kaldlyndi og ónærgætni. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar samtakanna.
Stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi harmar ummæli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, sem sagði í fréttum í kvöld að „ekki komi til greina að gera reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla,“ segir í ályktun Solaris en þar er vísað til egypskrar fjölskyldu sem stjórnvöld fyrirhuga að senda úr landi um miðjan september.
Enn fremur hafnar stjórn samtakanna því sem þau kalla „tilraun ráðherra til þess að fría sig ábyrgð í málaflokki sem hann ber ábyrgð á“. Þá er ráðherra hvattur til þess að beita sér fyrir því að öll börn, sem búið hafi á Íslandi í jafn langan tíma og þau börn sem nú er fyrirhugað að senda úr landi, fái skjól og vernd hér á landi. Egypska fjölskyldan sem senda á úr landi sótti upphaflega um hæli fyrir rúmum tveimur árum, líkt og fram kemur í frétt mbl.is um málið.
Í lok ályktunarinnar segir stjórn Solaris að óskandi væri að „stjórnvöld settu sér stefnu í málefnum fólks á flótta sem byggir á mannúð, samkennd og mannréttindum“. Segja samtökin að það muni þá ef til vill koma í veg fyrir að fólk neyðist til þess að fara með mál sín í fjölmiðla í örvæntingu sinni.