Kæra niðurrifið til lögreglu

Svona lítur lóðin við Skólavörðustíg 36 út í dag. Leifar …
Svona lítur lóðin við Skólavörðustíg 36 út í dag. Leifar hússins sem rifið var á miðvikudag hafa verið fjarlægðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum stöðvað framkvæmdir og það verður því ekkert gert á lóðinni í bili. Við munum kæra niðurrifið til lögreglu, væntanlega í dag,“ segir Nikulás Úlfar Másson, byggingafulltrúi Reykjavíkur.

Frétt Morgunblaðsins í gær um niðurrif hússins við Skólavörðustíg 36 vakti mikla athygli. Til stóð að byggja hæð ofan á húsið og viðbyggingu með þaksvölum og lágu öll leyfi fyrir vegna þess. Ekki var leyfi til að rífa húsið og áform þess efnis voru ekki kynnt skipulagsyfirvöldum. Húsið naut verndar vegna byggðamynsturs.

„Það var ekkert leyfi til niðurrifs og það var aldrei sótt um það. Þú mátt ekki rífa hús eða fikta í þeim með neinum hætti. Hann hins vegar bara reif húsið á innan við klukkutíma,“ segir Nikulás.

Birgir Örn Arnarson, eigandi hússins við Skólavörðustíg, segir í samtali við mbl.is að langur aðdragandi hafi verið að framkvæmdum þar. Áformin hafi þurft að fara tvisvar í grenndarkynningu og margsinnis hafi verið brotist inn í húsið. „Það er nú fyrir þreyttan að þola að mál skuli hafa þróast með þessum hætti. Nú þarf ég að fá botn í hvað þarf að gera til að ljúka þessum endurbótum,“ segir Birgir.

Hann rekur að húsið hafi verið orðið myglað af rakaskemmdun og engin prýði hafi verið af því. Teikningar af endurbyggðu húsi sýni að það verði mjög glæsilegt. „Það verður í stíl við götumyndina og verður líkt því útliti sem var upphaflega á húsinu,“ segir Birgir sem kveðst vera að reyna að finna út hvað nákvæmlega fór úrskeiðis og olli því að húsið var rifið. „Það gera allir mistök,“ segir hann.

Í húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur frá 2009 kemur fram að menningarsögulegt gildi hússins við Skólavörðustíg 36 sé að það sé hluti af heillegri byggð húsa frá 3. áratugi 20. aldar. Þar eru jafnframt raktar breytingar sem gerðar hafa verið á húsinu, breytingar sem Birgir segir að hafi haft áhrif á burðarþol þess og kunni að hafa leitt til hruns þess þegar framkvæmdir hófust.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hús þetta var byggt árið 1922 eftir teikningu Guðmundar H. Þorlákssonar. Í fyrstu fékkst leyfi fyrir einlyftu húsi, en á meðan það var enn í byggingu var samþykkt að byggja mætti ofan á það aðra hæð. Húsið hefur því frá upphafi verið tvílyft með risi. Í fyrstu brunavirðingu er hús þetta sagt byggt úr hlöðnum steinlímdum kalksteini, sem er afar óvenjulegt byggingarefni á þessum tíma. Í seinni virðingu er húsið hins vegar sagt byggt úr hlöðnum holsteini, 12 x 9 tommu þykkum, og er líklegra að þar sé um rétt byggingarefni að ræða. Inn- og uppgönguskúr hefur frá upphafi verið við vesturgafl hússins,“ segir í umfjöllun um húsið.

„Á hvorri hæð hússins var upphaflega ein íbúð. Um leið og húsið var byggt var reistur lítill geymsluskúr úr steinsteypu í suðvesturhorni lóðarinnar. Árið 1928 var búið að byggja nýjan og stærri geymslu- og þvottaskúr úr steinsteypu í suðausturhorni lóðarinnar. Árið 1942 var þessi skúr lengdur til norðvesturs og um leið byggður bílskúr úr timbri framan við hann, meðfram austurlóðamörkum. Húsið virðist hafa staðið óbreytt fram til ársins 1968, að öðru leyti en því að smárúðurammar í efri hluta glugganna voru fjarlægðir. Árið 1968 var innréttað verslunarhúsnæði á neðri hæð hússins, sem hafði þá um tíma verið notuð undir skrifstofur. Um leið var gluggum á framhlið hæðarinnar breytt í stóra verslunarglugga og inngangur settur á þá hlið. Þá var opnuð þarna Búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmann, sem er enn í húsinu. Þá var bílskúrinn austan við húsið rifinn. Í dag stendur einungis uppi lítill hluti af veggjum geymsluskúrsins í suðausturhorni lóðarinnar,“ segir þar ennfremur.

Verslun Þorsteins Bergmanns var lengi til húsa við Skólavörðustíg 36 …
Verslun Þorsteins Bergmanns var lengi til húsa við Skólavörðustíg 36 en húsið var byggt fyrir tæpum hundrað árum síðan. Ljósmynd/Google.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert