Segir tillögurnar „ófaglegt fúsk“

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs. Ljósmynd/Aðsend

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, segir tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn hyggst leggja fram á borgarstjórnarfundi um að breyting verði gerð á aðalskipulagi borgarinnar „ófaglegt fúsk“.

Í tillögunni felst að íbúabyggð á Keldum og í Örfirisey verði heimiluð. Samhliða því verði ráðist í skipulagningu atvinnulóða á Keldum. 

Í grein­ar­gerð Sjálf­stæðis­flokks seg­ir að meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn gangi út frá því að hægt sé að koma íbúa­byggð sem nemi 4.000 íbúðum á flug­vall­ar­svæðið í Vatns­mýr­inni. Að mati Sjálf­stæðis­flokks liggi þó fyr­ir að ekk­ert verði byggt í Vatns­mýr­inni á næstu 10 til 20 árum enda hafi ekki verið ákveðið hvar annað flug­vall­ar­stæði yrði staðsett.

Enn frem­ur sé út­lit fyr­ir að vegna efna­hags­lægðar í kjöl­far heim­far­ald­urs­ins muni tæp­lega verða ráðist í fram­kvæmd­ir við lagn­ingu nýs flug­vall­ar, fram­kvæmd sem odd­viti Sjálf­stæðis­flokks seg­ir að muni kosta um 100 millj­arða. Að þessu gefnu sé ljóst að gat upp á 4.000 íbúðir sé í hús­næðisáætl­un borg­ar­inn­ar en hún ger­ir ráð fyr­ir því að um 1.000 íbúðir verði byggðar á ári til árs­ins 2040.

Sigurborg segist ekki vera sammála því sem kemur fram í greinargerðinni. 

„Ég myndi segja að þessar tillögur Sjálfstæðisflokksins væru ófaglegt fúsk sem ég get engan veginn tekið undir. Þvert á móti hefur verið kröftugur vöxtur í borginni undanfarin ár og það stefnir núna í að það verði í fyrsta sinn í langan tíma hlutfallslega meiri vöxtur í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum,“ segir Sigurborg í samtali við mbl.is. 

„Það er ekkert gat í húsnæðisáætlun borgarinnar. Borgin mun ná sínum markmiðum um íbúðaruppbyggingu meðfram borgarlínu og í Ártúnshöfða og við höfum verið að sjá það að borgarlínan færir okkur dýrmæta þéttingarreiti og möguleikann á því að reisa þetta nýja hverfi í Ártúnshöfða þar sem borgarlínan verður hryggjarstykkið í uppbyggingunni,“ segir Sigurborg. 

Illa unnin kosningarloforð 

Sigurborg segir löngu búið að sýna fram á að tillögur Sjálfstæðisflokksins séu ekki vel unnar.  

„Ég myndi segja að það að draga upp illa unnin kosningaloforð á miðju kjörtímabili sé ekki sterkur leikur hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem það er löngu búið að sýna fram á hversu slæmar þær tillögur voru,“ segir Sigurborg. 

Hún segir að í ljós verði að koma hvenær hægt verði að ráðast í framkvæmdir við lagningu nýs flugvallar. Svarið geti þó aldrei verið að byggja á Keldum eða í Örfirisey. „Það bara gengur ekki upp samgöngulega séð. Það á að sjálfsögðu að byggja á Keldum en það verður ekki hægt fyrr en borgarlínan kemur þangað. Það verður að haldast í hendur,“ segir Sigurborg. 

„Við erum komin með nóg af því að dreifa byggð þar sem fólk er neytt til þess að nota einkabílinn. Það eru í grunninn samgöngur sem í dag gera það að verkum að þessir staðir ganga ekki upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert