Sóttvarnaraðgerðir svo lengi sem faraldurinn geisar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra rökræddu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra rökræddu aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar á Sprengisandi í dag. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Sprengisandi í dag að á meðan kórónuveirufaraldurinn væri í gangi í heiminum, þá yrðum við með einhvers konar sóttvarnaaðgerðir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að stjórnvöld þyrftu að lágmarka þá óvissu sem ríkti um aðgerðir svo fólk og fyrirtæki gætu brugðist betur við þeim. 

Í umræðu um aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar sagði Katrín að þjóðin væri mjög meðvituð um það sem stjórnvöld væru að gera í sóttvarnarráðstöfunum, sem væri ekki einfalt mál. Nefndi hún aðgerðir stjórnvalda í Svíþjóð, Bretlandi og á Spáni sem dæmi um þær fjölbreyttu leiðir sem önnur ríki hefðu farið til að nálgast þennan vanda, en að ljóst að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru hófstilltar samanborið við önnur lönd. 

Frumskyldan að vernda rétt fólks til lífs og heilsu

„En er ástæða til, þú spyrð,“ sagði Katrín og beindi orðum sínum að Kristjáni Kristjánssyni, þáttastjórnanda Sprengisands. „Já, frumskylda stjórnvalda á hverjum tíma er að vernda rétt fólks til lífs og heilsu og við höfum lært mikið um veiruna frá því að hún birtist hér fyrst í lok febrúar.“ Sagði Katrín einnig ástæðu til að fara varlega því að nú væru að koma í ljós þau eftirköst sem fólk sem hefði fengið sjúkdóminn væri að glíma við, sem væru ekkert smá mál. Um leið væri veiran í vexti um allan heim. 

Katrín benti á að ekki væri hægt að setja samansemmerki milli sóttvarnaraðgerðanna og afleiðinga kórónuveirunnar. Þegar samdráttur í Bretlandi og Frakklandi væri borinn saman við Ísland væru Íslendingar mun nær hinum ríkjunum á Norðurlöndum. „Og þar er Svíþjóð til dæmis með meiri samdrátt en önnur Norðurlönd, þannig að þetta er ekki einfalt mál.“ Stjórnvöld hefðu því skýra sýn, sem snerist m.a. um að draga sem mest úr samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum veirunnar. 

Algjörlega óljóst hver markmið stjórnvalda væru

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að það hefði gengið vel á Íslandi að fást við kórónuveiruna miðað við mörg önnur lönd. „Nema hvað, nú seinniparts sumar, hefur óvissan verið miklu meiri en í upphafi. Í upphafi var útskýrt fyrir okkur hvað sóttvarnaryfirvöld ætluðu sér, þau ætluðu að stýra þessu með þeim hætti að heilbrigðisyfirvöld réðu við það, við fengum að sjá myndir af þessari kúrfu og farið yfir hvað það þýddi að fletja kúrfuna,“ sagði Sigmundur Davíð. 

Hann bætti við að nú væri það algjörlega óljóst að sínu mati hvert markmið stjórnvalda í viðureigninni við þessa veiru væri. Hann væri sammála Katrínu í því að stjórnvöld hlytu að vilja vernda heilsu og efnahag landsmanna eins og kostur er. „En með hvaða hætti? Hvaða takmörkum ætla menn að stefna að til að ná því óljósa meginmarkmiði?“ spurði Sigmundur Davíð. 

Sigmundur gagnrýndi jafnframt að fyrirsjáanleikinn væri enginn og nefndi að lokunin síðast virtist hafa birst mjög óvænt, ekki síst fyrir fólk í ferðaþjónustu. „Ef menn hafa enga hugmynd um hvert markmið stjórnvalda er og að hverju þau stefna, þá geta þeir ekki gert ráðstafanir sjálfir, hvort sem þeir reka fyrirtæki eða bara fyrir sjálfa sig sem einstaklinga.    Ef menn hins vegar vita að hverju er stefnt, þá er hægt að laga sig að því og stjórnvöld geta líka lagað sig að því og veitt þeim aðilum stuðning sem verða helst fyrir barðinu á þeim reglum sem innleiddar eru.“

Sagði Sigmundur aðspurður í kjölfarið að það yrði alltaf einhver óvissa, en að stjórnvöld þyrftu að lágmarka hana eins og kostur væri og láta menn ekki bíða í algjörri óvissu um næstu skref. Það væri best gert með skýrri stefnu. 

Ekki stefnt að veirufríu samfélagi

Katrín sagðist ekki alveg sammála Sigmundi, og sagði að þær aðgerðir sem ráðist hefði verið í hefði hver byggt ofan á annarri, og að það hefði legið fyrir frá upphafi þegar landamærin voru opnuð að gripið yrði til aðgerða ef önnur bylgja kæmi upp. Katrín sagði aðspurð að stefnan væri ekki sú að hér yrði veirufrítt samfélag, og að hún vissi að aðgerðirnar bitnuðu illa á ferðaþjónustunni, en það væri úrlausnarefni. 

„Og það er nokkuð kúnstugt að heyra, og ég er ekki að tala um Sigmund, en stjórnmálamenn sem tala um að allt sé þessum sóttvarnaraðgerðum að kenna, og sérstaklega þessum landamæraaðgerðum, en við verðum að vera í raunheimum með það að á meðan þessi faraldur er í gangi, þá verða sóttvarnaraðgerðir. Innanlands eða á landamærum, hvernig sem við snúum þessum teningi, þá verður það þannig.“

Bætti Katrín við að ef ekki hefði komið upp sá fjöldi smita við greiningu á landamærum eða við seinni skimun sem raun væri, þá hefði þegar verið búið að endurmeta þær aðgerðir sem ráðist var. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert