„Þetta er svona eins og maður segir við börnin sín þegar maður er úti að labba, við erum alveg að koma heim,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um stöðuna á faraldrinum á upplýsingafundi almannavarna í dag. Með því átti hann við að það væri ómögulegt að segja til um það hversu langt væri eftir af faraldrinum.
„Þetta er búið að vera rólegt bæði innanlands og á landamærunum síðustu daga,“ sagði Þórólfur. Virkum smitum er að fækka og kúrfan að fara niður. Þau smit sem hafa greinst undanfarið eru af sömu stofnum og hin smitin sem greinst hafa í seinni bylgju.
Þórólfur benti þó á að þróunin erlendis væri óhagstæð Íslendingum að mörgu leyti en aldrei hafa jafn mörg smit greinst á einum sólarhring á heimsvísu og í gær. Vegna þess væru auknar líkur á að smit gætu komið inn í landið. Því sagði Þórólfur óráðlegt að slaka á aðgerðum á landamærum en tvöföld skimun með sóttkví á milli stendur til 6. október. Vinna er farin af stað af hálfu stjórnvalda við að kanna mögulegar útfærslur skimana.
Tvö innanlandssmit greindust í gær en þau voru bæði hjá fólki sem var utan sóttkvíar. Spurður hvort um sé að ræða hópsmit sagði Þórólfur að enn væri verið að rekja smitin en þetta sýndi að veiran væri „lúmsk“ og færi undir radarinn.
Þá sagði Þórólfur að Svíar gætu hæglega fengið aðra uppsveiflu í faraldrinum enda væru Svíar fjarri því að mynda hjarðónæmi. Það væri þó ánægjulegt ef Svíar slyppu við aðra bylgju faraldursins en Þórólfur sagði að það myndi ekki segja til um það hvort þeirra nálgun, sem var frjálslegri en víða annars staðar, á faraldurinn hefði verið heppileg.