Mótmæli vegna fyrirhugaðrar brottvísunar hinnar egypsku Kehdr-fjölskyldu eru hafin fyrir utan ráðherrabústaðinn. Um tuttugu manns eru á svæðinu og stendur lögregla vörð um inngang ráðherrabústaðarins.
Bifreiðum ráðherranna er ekki lagt fyrir utan bústaðinn eins og venjan er.
Samtökin No Borders Iceland standa fyrir mótmælunum.
„Mætum og látum ráðherra (þá sérstaklega Áslaugu Örnu) vita að Kehdr-fjölskyldan, þau Rewida, Abdalla, Hamza, Mustafa og foreldrar þeirra Dooa og Obrahim, eiga heima á Íslandi – landið þar sem þau hafa fundið öryggi saman – enda hafa þau verið hér í meira en 2 ár. Áslaug Arna vill breyta valfrjálsu dyflinnarreglugerðinni til að brottvísa fjölskyldunni þó svo að fjölskyldan sé í hættu í Egyptalandi,“ segir í lýsingu á viðburðinum.