Ljósmynd sem var sögð vera af máltíð fyrir eldri borgara í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar var í raun mynd af matarleifum.
Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í óundirbúnum fyrirspurnartíma á borgarstjórnarfundi. Þar svaraði hann fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, um það hvers vegna ekki væri passað upp á að maturinn sem boðið væri upp á væri bæði hollur og neysluvænn.
Dagur sagði að brauðhleif hefði verið stungið ofan í umbúðir utan af súpu og að myndin hefði ekki gefið rétta mynd af matnum eins og hann er jafnan borinn fram.
Hann sagði borgina reka eldhús sem eldaði mat sem væri sendur víða um borg frá Vitatorgi og hann væri bæði góður og girnilegur. Næringarfræðingur væri að innleiða næringarviðmið miðað við matarstefnu borgarinnar.
Borgarstjóri bætti við að þeir sem vildu kynna sér hvað væri í matinn hverju sinni gætu farið inn á nýja facebooksíðu framleiðslueldhússins á Vitatorgi þar sem maturinn væri daglega sýndur á mynd til þess að gefa leiðbeiningar út á þjónustustaðina um hvernig skyldi reiða hann fram.
Eftir þetta þuldi Dagur upp matseðil vikunnar og sagði að um venjulegan heimilismat væri að ræða. Borgin hefði reynt að vera „meira framúrstefnuleg“ en fengið þá miklar kvartanir. Nefndi hann jafnframt að á síðasta kjörtímabili þegar sömu matarmál voru rædd hefði hann fengið sendan matinn til sín á skrifstofuna í eina viku og kvaðst hann geta staðfest að „hann er bara mjög bragðgóður“.
Vigdís sagði í framhaldinu að ekki þýddi að tala um að ljósmyndin hefði verið gölluð því þetta væri það sem fólkið í Norðurbrún hefði fengið í matinn umrædda helgi.