Rottugangur í Ráðhúsinu

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins náði mynd af mink á svölum Ráðhússins.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins náði mynd af mink á svölum Ráðhússins. Ljósmynd/Marta Guðjónsdóttir

Rottur hafa sést við inngang Ráðhúss Reykjavíkur og minkur á svölum á annarri hæð. Þetta segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en henni tókst að fanga minkinn á mynd sem hún birti á facebooksíðu sinni.

„Minkur og rottur hafa verið á sveimi við Ráðhúsið að undanförnu. Þessi tók á móti okkur þegar við mættum í borgarstjórn í dag,“ ritar Marta með færslunni.

„Það er augljóslega rottugangur í Ráðhúsinu og eru þær byrjaðar að taka á móti okkur þegar við mætum til vinnu. Í dag tók svo minkur á móti okkur þegar við mættum í borgarstjórn,“ segir Marta í samtali við mbl.is og heldur áfram: „Þetta er nú ekki beinlínis geðslegt og frekar óþægilegt að láta rottur taka á móti sér við vinnuna.“

Spurð hvort rottur eða minkur hafi sést á gangi innanhúss kveður Marta nei við. „Minkurinn var þó ansi nálægt því að vera kominn inn. Hann sást hér á annarri hæð, á svölum við borgarráðsherbergið. Ef það hefði verið opið út hefði dýrið auðveldlega komist inn. Dýralífið er orðið ansi fjölbreytt við Ráðhúsið, svo vægt sé til orða tekið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert