Rottur hafa sést við inngang Ráðhúss Reykjavíkur og minkur á svölum á annarri hæð. Þetta segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en henni tókst að fanga minkinn á mynd sem hún birti á facebooksíðu sinni.
„Minkur og rottur hafa verið á sveimi við Ráðhúsið að undanförnu. Þessi tók á móti okkur þegar við mættum í borgarstjórn í dag,“ ritar Marta með færslunni.
„Það er augljóslega rottugangur í Ráðhúsinu og eru þær byrjaðar að taka á móti okkur þegar við mætum til vinnu. Í dag tók svo minkur á móti okkur þegar við mættum í borgarstjórn,“ segir Marta í samtali við mbl.is og heldur áfram: „Þetta er nú ekki beinlínis geðslegt og frekar óþægilegt að láta rottur taka á móti sér við vinnuna.“
Spurð hvort rottur eða minkur hafi sést á gangi innanhúss kveður Marta nei við. „Minkurinn var þó ansi nálægt því að vera kominn inn. Hann sást hér á annarri hæð, á svölum við borgarráðsherbergið. Ef það hefði verið opið út hefði dýrið auðveldlega komist inn. Dýralífið er orðið ansi fjölbreytt við Ráðhúsið, svo vægt sé til orða tekið.“