Skammtímafórn fyrir langtímaávinning

Samkvæmt skýrslunni skar Ísland sig ekki úr hvað varðar samdrátt …
Samkvæmt skýrslunni skar Ísland sig ekki úr hvað varðar samdrátt í komu ferðamanna í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gagnlegt væri að útskýra markmið sóttvarnaaðgerða betur og auka fyrirsjáanleika um þær eftir því sem við verður komið. Þá fela árangursríkar sóttvarnir í sér skammtímafórn fyrir langtímaávinning. 

Þetta segir í skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnamálum. Starfshópinn skipa Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 

Í skýrslunni kemur fram að mat á efnahagslegum áhrifum sóttvarna sé óvenjuflókið og erfitt að leggja þá mælistiku á einstakar aðgerðir. Augljóst sé hins vegar að sóttvarnir geta bæði gengið of langt og of skammt. Sóttvarnaaðgerðir innanlands hafi lengst af verið mildar í alþjóðlegum samanburði og árangur þeirra góður. Einna mikilvægast sé að missa ekki tökin á faraldrinum og lenda í sambærilegu ástandi og skapaðist í mars og apríl. 

Ísland skeri sig ekki úr 

Samkvæmt skýrslunni skar Ísland sig ekki úr hvað varðar samdrátt í komu ferðamanna í sumar. Samdrátturinn var svipaður á Íslandi og í mörgum öðrum löndum þar sem ferðaþjónusta er mikilvæg, svo sem á Spáni og í Grikklandi. 

Bent er á það í skýrslunni að vísbendingar eru um að tekið hafi að draga úr flugumferð og ferðamennsku samhliða vexti faraldursins í ágústmánuði bæði hér á landi og víða í Evrópu áður en almenn tvöföld skimun með sóttkví hófst á landamærunum 19. ágúst. Sú þróun virðist hafa haldið áfram. Einnig er sýnt skýrt fram á það í skýrslunni að áhættan af einfaldri skimun sé þó nokkuð meiri en af núverandi fyrirkomulagi. Því er líklegt að sá samdráttur vegna breytts fyrirkomulags skimunar sé í raun töluvert minni af fyrrgreindum ástæðum. 

Til bóta að auka fyrirsjáanleika 

Að mati starfshópsins gegna stjórnvöld lykilhlutverki í að sporna gegn frekara tjóni, t.d. með því að dreifa byrðum áfallsins, skapa skilyrði til að fullnýta framleiðsluþætti þegar aðstæður leyfa, vernda samband atvinnurekenda og starfsfólks, standa vörð um viðskiptasambönd og tryggja að mikilvæg þekking og reynsla glatist ekki á meðan ástandið varir. 

Ábendingar hópsins eru:

  • Að gagnlegt væri að útskýra markmið sóttvarnaaðgerða betur.
  • Til bóta væri að auka fyrirsjáanleika um sóttvarnaaðgerðir eftir því sem við verður komið.
  • Að skoða hvort aðrar sóttvarnaaðgerðir á landamærum séu mögulegar án þess að taka of mikla áhættu fyrir þróun faraldursins erlendis.
  • Að skoða gaumgæfilega leiðir til að veita ferðaþjónustu stuðning til að viðhalda reynslu, þekkingu og viðskiptasamböndum á meðan ástandið varir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert