Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir fjölda greindra smita í gær ógnvekjandi og Íslendingar þurfi að búa sig undir aðra bylgju veirunnar eftir eina til tvær vikur. 13 greindust smitaðir af veirunni í gær og aðeins eitt smitanna greindist hjá einstaklingi í sóttkví.
„Það er ógnvekjandi. Þetta fólk er úti um allt í samfélaginu og mér finnst líklegt að smit sé það líka. Ég held að við ættum að búa okkur undir að það gæti komið önnur bylgja eftir svona eina til tvær vikur. Þótt ég sé ekki að leggja það á okkur að það komi eða spá því að það gerist þá finnst mér að við verðum að búa okkur undir það,“ segir Kári í samtali við mbl.is.
4-5 smita sem greinst hafa á síðustu dögum tengjast Háskóla Íslands. Þá greindist nemandi við Háskólann í Reykjavík smitaður en sá hafði starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu. ÍE ætlar sér nú að bjóða nemendum HÍ og HR sem og starfsfólki skólanna skimun.
„Við erum farin að sjá mynstur sem bendir til þess að það sé dálítið mikið um svona smit þar sem unga fólkið vinnur.“
Spurður hvort rétt væri að ýta skólastarfi alfarið í fjarnám eins og var víða í háskólum í fyrstu bylgju faraldursins segir Kári:
„Ég held að það sé að minnsta kosti vafasamt að þjappa nemendum meira í skóla í augnablikinu. Við ættum að bíða þessa hrinu af okkur.“