Magnús D. Norðdahl, lögmaður Kehdr-fjölskyldunnar, segir að lögreglan hafi ætlað að sækja fjölskylduna klukkan 5:30 í morgun og flytja hana úr landi. Slökkt sé á síma fjölskyldunnar og hann hafi ekki heyrt í þeim í morgun. Þetta kom fram í viðtali við Magnús í morgunútvarpi Rásar 2.
Til stóð að fjölskyldan flygi með flugvél Icelandair til Amsterdam í morgun og fór sú flugvél af landi brott klukkan 7:31.
Magnús skrifar á Facebook í gærkvöldi að hann sé yfirbugaður af sorg og reiði í garð kerfisins og stjórnmálamanna.
„Á síðustu árum hafa ráðherrar og þingmenn ítrekað stigið inn í einstök mál hælisleitenda og beitt sér. Má þar í dæmaskyni nema mál ungu stúlkunnar Zainab Safari úr Hagaskóla og ekki síður mál Sarwari-feðganna. Reglugerðum og lögum hefur verið breytt í kringum tilteknar fjölskyldur og aðrir í sambærilegri stöðu notið góðs af.
Öll ummæli forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur og Ásmundar Einars Daðasonar um skort á heimildum til að beita sér í málinu er aumkunarverð tilraun til að varpa frá sér ábyrgð og í sannleika sagt hrein [og] klár afneitun á börnunum sem á náðir þeirra leituðu. Ég geri ráð fyrir að aðrir og „mikilvægari“ hagsmunir hafi ráðið för og að ráðherrunum þyki vænt um sína stóla. Þó að málaflokkurinn heyri undir dómsmálaráðaherra eru Katrín og Ásmundur hluti af þeirri heild sem ríkisstjórnin er.
Því skal haldið til haga að heildstætt og sjálfstætt mat fór aldrei fram á hagsmunum barnanna, hvorki í upphafi né á síðari stigum þegar þau höfðu dvalið hér í eins langan tíma og raun ber vitni. Um er að ræða klárt brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 76. gr. stjórnarskrárinnar.
Að svokallaður barnamálaráðherra hafi látið sér nægja að spyrja dómsmálaráðherra hvort gætt hafi verið að hagsmunum barnanna er mér fyrirmunað að skilja. Af hverju kannaði ráðherrann ekki málið og dró sínar eigin ályktanir? Var hann kannski of upptekinn við að koma á kerfis- og lagabreytingum í málefnum barna?
Mál egypsku fjölskyldunnar verður í heild sinni borið undir dómstóla óháð þeirri brottvísun sem fyrirhuguð er. Það ranglæti sem þau hafa sætt verður að leiðrétta. Ég vona að fjölskyldan verði örugg og að ég geti á einhverjum tímapunkti í framtíðinni hitt þau aftur og borið þeim þau tíðindi að hér megi þau búa.
Þó kerfið og stjórnvöld hafi brugðist þá hefur almenningur látið í sér heyra og það er mikilvægara en nokkru sinni að viðhalda umræðunni og þeim þrýstingi sem fram hefur komið síðustu daga. Þannig verða breytingar í lýðræðissamfélagi,“ skrifar Magnús.
Í viðtali við Sigmar Guðmundsson á Rás 2 í morgun sagði Magnús að hann muni í dag kalla eftir skýringum á ummælum Þorsteins Gunnarssonar, sviðsstjóra hjá Útlendingastofnun, sem sagði í Kastljósi í gærkvöldi að hægt hefði verið að flytja fjölskylduna úr landi í ársbyrjun, fyrir heimsfaraldur kórónuveiru.
Til þess hefðu foreldrarnir þó þurft að sækja um framlengingu vegabréfa tveggja barnanna en ekki verið viljugir til þess. Þess vegna hefðu yfirvöld þurft að óska eftir nýjum vegabréfum frá egypskum yfirvöldum og það ferli hefði tekið marga mánuði, en nýju vegabréfin bárust í ágúst.
„Við getum ekki þvingað fólk til þess að vinna með okkur,“ sagði Þorsteinn um það atriði að foreldrarnir hefðu ekki óskað eftir framlengingunni sjálfir. Að sögn Magnúsar runnu vegabréf tveggja barna þeirra út 28. janúar og voru því gild frá 18. desember og því hafi verið hægt að vísa þeim úr landi á þeim tíma.
Magnús segir að máli fjölskyldunnar verði vísað til dómstóla. Tvær endurupptökubeiðnir liggi fyrir kærunefndinni og þeim hafi ekki verið svarað.
Fjölskyldan sótti um hæli 7. ágúst 2018 og hafnaði Útlendingastofnun umsókninni 25. júlí 2019. Höfnunin var staðfest af kærunefnd útlendingamála 14. nóvember sama ár. Kærunefndin hafnaði því í gær að fresta réttaráhrifum í máli fjölskyldunnar. Nefndin hefur einnig lýst því yfir að hún muni ekki afgreiða þær tvær beiðnir sem eru á borði hennar um endurupptöku málsins.
Magnús heyrði ekkert í fjölskyldunni í gær eftir að úrskurður kærunefndar lá fyrir en hann fékk hann ekki í hendur fyrr en síðdegis í gær. Hann segir að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi fengið úrskurðinn í hendur áður en fjölskyldan og lögmaður hennar fengu hann afhentan.
Sigmar spurði Magnús út í umræðu um aðild föðurins að Bræðralagi múslima en hún er til umfjöllunar í Staksteinum Morgunblaðsins á þriðjudag, 14. september. Þar segir orðrétt:
„Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari ritar á blog.is: „Ef Íslendingur telur sér ekki vært á Fróni, tekur sig upp og flyst til framandi lands þá skapar hann sér óvissu. Taki hann fjölskylduna með sér eykst óvissan. Ef pappírarnir eru ekki í lagi og óvíst með landvist og ný heimkynni er viðkomandi að leggja á tæpasta vað.
Ef þessi ímyndaði Íslendingur er öfgamaður og aðhyllist pólitík um guðs ríki á jörðu, þar sem dauðarefsing liggur við að afneita trúnni og helmingur mannkyns, kvenkynið, er settur skör lægra en karlar, tja, þá er um sérstaklega ósvífinn einstakling að ræða ef hann heimtar mannúð og landvist í ríki sem er andstæða við trú hans.
Egyptinn sem kom hingað með fjölskyldu sína lýsir stoltur yfir því að hann tilheyri Bræðralagi múslima. Samtökin eru viðurkennd öfgasamtök, áhöld eru um hvort þau séu hryðjuverkasamtök.
Egyptinn uppfyllir ekki skilyrði til að fá landvist hér á landi. Sé honum veitt landvist bitnar það á öðrum, sem eru verðugri.“
Eðlilegt er að fólk hafi samúð með börnum sem ferðast þurfa á milli landa og njóta ekki fyllsta öryggis en eins og Páll bendir á hangir fleira á spýtunni.
Staðreyndin er þó sú að engin fjölskylda og ekkert barn kemur beint frá ófriðarsvæði eða óöruggu landi til Íslands. Þeir sem hingað koma og segjast á flótta koma frá meginlandi Evrópu og reglur kveða á um að þangað eigi þeir að hverfa á ný. Afar mikilvægt er að þeim reglum verði fylgt og að það verði gert mun hraðar en nú er,“ segir í Staksteinum Morgunblaðsins.
Magnús segir að umræðan um málefni egypsku fjölskyldunnar hafi dregið fram mörg nettröll meðal annars varðandi Bræðralag múslima. Þegar talað sé um samtökin sem hryðjuverkasamtök segi það ýmislegt um þá sem þar rita en hvorki Bandaríkin né Evrópusambandið skilgreina samtökin sem hryðjuverkasamtök. Það gera aftur á móti Rússar og sýrlensk stjórnvöld að sögn Magnúsar.
Hann segir að þessi vísun í bakgrunn föður eigi sér enga stoð í veruleikanum og þekkjandi manninn viti Magnús að engin hætta stafi af honum. Ekki megi gleyma því að Útlendingastofnun dragi ekki í efa að föðurnum hafi verið hótað lífláti í heimalandinu. Það sé því ljóst að hann eigi á hættu að vera handtekinn við komuna til Egyptalands og jafnvel eiginkona hans einnig að sögn Magnúsar í viðtali við Rás 2 í morgun.