Greina frá nafni veitingastaðarins

Tekið er fram að ekkert bendi til þess að sóttvörnum …
Tekið er fram að ekkert bendi til þess að sóttvörnum hafi verið áfátt á veitingastaðnum. AFP

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa ákveðið að greina frá nafni veitingastaðarins þar sem talið er að margt fólk hafi verið útsett fyrir kórónuveirusmiti, í samráði við eigendur staðarins.

Um er að ræða The Irishman Pub, á Klapparstíg 27, en fólkið var saman komið á barnum að kvöldi föstudagsins 11. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild.

Segir þar að rétt sé að taka fram að ekkert bendi til þess að sóttvörnum hafi verið áfátt á veitingastaðnum. Hætta á smiti sé ávallt til staðar þar sem fjöldi fólks komi saman.

Bjóða fólki í sýnatöku

„Nauðsynlegt er að hafa uppi á þeim sem þar voru til þess að koma í veg fyrir frekar útbreiðslu veirunnar. Er þeim sem sóttu ofangreindan stað umræddan dag á milli klukkan 16 og 23 því boðið að mæta í sýnatöku,“ segir í tilkynningunni.

Á morgun, föstudaginn 18. september, geti þeir sem voru á barnum farið á heimasíðuna wwww.heilsuvera.is og skráð sig í sýnatöku.

„Sóttvarnalæknir og almannavarnir biðla til þeirra sem sóttu ofangreindan stað á umræddum degi að hafa hægt um sig þar til sýnataka hefur farið fram og neikvæð niðurstaða liggur fyrir.“

Ítrekað er að helstu einkenni veirunnar séu:

  • Hiti
  • Hósti
  • Bein- og vöðvaverkir og þreyta.
  • Meltingareinkenni (kviðverkir,ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt.
  • Breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni er lýst hjá 20-30% sjúklinga.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert