Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, óttast að sameiginleg yfirlýsing Icelandair, Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambandsins (ASÍ) útiloki alls ekki að önnur fyrirtæki ráðist í svipaðar aðgerðir og Icelandair þegar það sagði upp öllum sínum flugfreyjum skömmu áður en gengið var til samninga í sumar.
„Í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins hafa stigið harkalega fram að undanförnu og farið yfir línur sem ekki hefur verið farið áður þá er þeim trúandi til alls,“ segir Ragnar Þór í samtali við Morgunblaðið.
Icelandair, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið undirrituðu í gær yfirlýsingu þar sem aðilar sammæltust um að aðgerðir Icelandair í kjaradeilu flugfreyja, þegar öllum flugfreyjum félagsins var sagt upp, hafi ekki verið í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilji viðhafa. Icelandair telji nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks. Einnig segir að aðilar séu sammála um að ljúka öllum deilum sín á milli, en áður hafði ASÍ sagst myndu stefna Icelandair fyrir félagsdómi vegna aðgerðanna, sem sambandið taldi ólöglegar.
Stéttarfélagið Efling gagnrýndi yfirlýsinguna. Í tilkynningu þess segir að með yfirlýsingunni hafi ASÍ tekið þátt í „hvítþvotti brota“ Icelandair og SA á vinnumarkaðslöggjöf með því að kalla þau „brot á samskiptareglum“. Yfirlýsingin veiti enga tryggingu fyrir því að brotin verði ekki endurtekin.
Ragnar Þór segir að hann skilji afstöðu beggja, þ.e. ASÍ og Eflingar. Yfirlýsingin sé til þess fallin að skapa sátt um Icelandair. Jákvæður tónn sé tímabær í stað hvassrar og óvæginnar umræðu sem skapast hafi milli verkalýðshreyfingarinnar og SA.