Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar í dag klukkan 14:00, en þar munu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri fara yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19-faraldursins hér á landi.
Kemur þessi fundur nú í kjölfar þess að smitum hefur fjölgað mikið á ný og hefur Þórólfur ásamt fleiri sérfræðingum talað um að þriðja bylgja faraldursins sé nú hafin. Síðasta sunnudag voru tvö greind smit. Á mánudaginn fjölgaði þeim lítið eitt og voru þá greind sex innanlandssmit. Á þriðjudaginn greindust 13 smit og á miðvikudaginn 19. Á fimmtudaginn var tala nýrra smita innanlands 21, en á föstudaginn hækkaði sú tala mikið og greindust þá 75 með smit.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði í gær að til skoðunar væri að færa viðbúnað almannavarna af hættustigi og á neyðarstig á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þess fjölda smita sem greinst hafa sólarhringinn á undan.
Þórólfur sagði á fundinum í gær að ekki væri búið að ákveða hvort eða hvernig herða ætti aðgerðir innanlands í ljósi þeirra smita sem upp hafa komið síðustu daga. Sagði hann það munu ráðast næsta sólarhringinn, þannig að búast má við því að til tíðinda dragi á fundinum á eftir varðandi hver tilmæli hans verði til heilbrigðisráðherra um næstu skref.