Allir flokkar í bæjarstjórn Akureyrar hafa komið sér saman um að starfa saman að stjórn bæjarfélagsins það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Þetta kom fram á blaðamannafundi oddvita flokkanna í hádeginu.
Samfylkingin, L-listi og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta á Akureyri frá síðustu kosningum, en flokkarnir hafa hver um sig tvo bæjarfulltrúa; samanlagt sex af ellefu. Í minnihluta hafa verið fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þrír talsins, og fulltrúi Vinstri grænna og Miðflokksins.
Markmiðið með samstarfinu er að sögn að mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í rekstri sveitarfélagsins, sem hefur verið þungur að undanförnu. Staðan sem blasir við sveitarfélaginu sé óþekkt og óhjákvæmilegt að grípa til hagræðingar í rekstri samhliða lántöku til framkvæmda.
Flokkarnir þrír, sem áður voru í minnihluta, taka við formennsku í skipulagsráði og frístundaráði bæjarins, auk formennsku í stjórnum Menningarfélags Akureyrar, Vistorku og Fallorku.
Fréttin hefur verið uppfærð.