Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mættu ekki á ríkisstjórnarfund sem hófst í morgun vegna veikinda. Í stað Katrínar tók Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra við stjórn fundarins.
Að sögn Róberts Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, er Katrín núna í skimun en hann hefur ekki upplýsingar um hvenær Svandís fer í skimun. Vísir greindi fyrst frá málinu.
„Það eru mjög litlar líkur á því að hún sé með Covid-19. Hún hefur ekki verið útsett fyrir smiti síðustu daga,“ segir Róbert um Katrínu sem fann fyrir slappleika síðdegis í gær.
Róbert segir að um sé að ræða öryggisráðstöfun í samræmi við tilmæli sóttvarnaryfirvalda um að ef fólk finnur fyrir einkennum skuli það halda sig fjarri öðru fólki og bóka tíma í skimun.
Ef svo reynist að ráðherrarnir séu smitaðir munu þeir fara í einangrun og eftir því sem heilsa og aðstæður leyfa taka þátt í sínum störfum með fjarfundarbúnaði, að sögn Róberts.