Ummæli Þórólfs um Frakkaveiru óheppileg

Ferðamenn við Dettifoss. Frönsku ferðamennirnir virtu ekki sóttvarnareglur.
Ferðamenn við Dettifoss. Frönsku ferðamennirnir virtu ekki sóttvarnareglur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við megum ekki vera að draga þjóðir í einhverja dilka út af svona tilfellum,“ segir Guðlaug M. Jakobsdóttir, forseti stjórnar Alliance Française, spurð út í ummæli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem kallaði afbrigði kórónuveirunnar Frakkaveiruna í gær. 

Ummæli sóttvarnalæknis eru tilkomin vegna þess að langflest smit sem hafa komið upp að undanförnu eru af sama afbrigði veirunnar og tveir franskir ferðamenn greindust með í ágúst. Ferðamennirnir fylgdu ekki sóttvarnareglum.

„Þetta eru einstaklingar sem höguðu sér óábyrgt og það er alveg sama hvaðan þeir koma, þetta var bara óábyrg hegðun,“ segir Guðlaug um það. Ummæli Þórólfs eru að hennar mati óheppileg. 

„Þessi Frakkaveira, sem við getum kannski kallað svo, er yfirgæfandi svolítið núna,“ sagði Þórólfur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Varaði við tengingum við staði

Í lok ágúst hvatti Alma D. Möller landlæknir fólk til að forðast það að tengja veiruna við staði enda væri það óábyrgt. Þá höfðu smit komið upp sem bæði tengdust Akranesi og hóteli á Suðurlandi. 

Eins og frægt er orðið hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekað kallað veiruna Kínaveiruna þar sem hún á rætur sínar að rekja til Wuhan í Kína. Það hefur sætt mikilli gagnrýni. Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi kallaði veiruna einnig Kínaveiruna í tísti í júlímánuði og féll það illa í kramið hjá mörgum Íslendingum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert