Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi eða 25,6%.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá könnunarfyrirtækinu MMR.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist rúmlega einu og hálfu prósentustigi hærra en við síðustu mælingu MMR, sem gerð var í ágúst.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 51,0%, og er tæpu prósentustigi meira en við síðustu mælingu.
Þrátt fyrir það dregst fylgi Vinstri grænna saman og mælist nú 8,5%, en mældist 9,6% í síðustu könnun.
Píratar mælast næststærstir með 15,0% fylgi, tæpu prósentustigi meira en við síðustu mælingu.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur á sama tíma dregist saman um tvö prósentustig frá síðustu mælingu og mælist nú 12,8%.
Fylgi Miðflokksins jókst hins vegar um tæplega þrjú prósentustig frá síðustu könnun og mælist nú 10,8%.