Ekkjusvikarinn tengdist manndrápi

Árásin á Arnar Jónson Aspar átti sér stað við bæinn …
Árásin á Arnar Jónson Aspar átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal þar sem hann bjó ásamt barnsmóður sinni og tveimur dætrum. Foreldrar hans búa þar enn. Komið hefur fram að árásin tengist fjársvikum þekkts svikara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Í nýrri seríu af hljóðvarpsþáttunum Sönn íslensk sakamál sem kom út fyrr í vikunni kemur fram áhugaverð tenging á milli tveggja ólíkra mála sem eru gerð skil í fyrstu tveimur þáttunum. Sem fyrr er það fjölmiðlamaðurinn Sigursteinn Másson sem hefur umsjón með þáttunum en þeir hafa notið mikilla vinsælda hjá hlaðvarpsunnendum undanfarið ár. 

Í fyrsta þætti seríunnar er fjallað um ævintýraleg fjársvik athafnaskáldsins Sigurðar Kárasonar sem yfir áratugaskeið hefur náð að svíkja svimandi háar upphæðir af fólki vítt og breitt um landið. Um tíma var hann áberandi í íslensku viðskiptalífi þegar hann rak tívolí í Hveragerði og átti Hótel Borg. Mál Sigurðar hefur beina tengingu við einn af óhugnanlegri atburðum síðustu ára þegar hópur fólks hugðist innheimta skuld af Arnari Jónssyni Aspar við Æsustaði í Mosfellsdal sumarið 2017. Grimmilegu ofbeldi var beitt með þeim afleiðingum að Arnar lét lífið þar sem fjölskylda hans fylgdist með og nýfædd dóttir hans svaf skammt frá. 

Við undirbúning hlaðvarpsþáttanna fyrr á árinu kom í ljós að féð sem ofbeldismennirnir töldu sig eiga inni hjá Arnari ætti rætur í fjársvikum Sigurðar Kárasonar sem hafði náð að ginna Arnar Jón og foreldra hans til að afhenda sér vel á annan tug milljóna króna.  

Sigursteinn Másson, þáttagerðarmaður, vinnur nú að fjórðu hlaðvarps-seríunni af Sönn …
Sigursteinn Másson, þáttagerðarmaður, vinnur nú að fjórðu hlaðvarps-seríunni af Sönn íslensk sakamál. mbl.is/Hari

Grunlaus um tengslin

„Þegar við byrjuðum að skoða þessi fjársvikamál þá höfðum við ekki hugmynd um að þau hefðu nokkra tengingu við þetta manndrápsmál á Æsustöðum. Þetta var bara eitt af því sem kom upp í rannsóknarvinnunni þegar við fórum að tala við fórnarlömb þessa fjársvikara,” útskýrir Sigursteinn. Í öðrum þætti seríunnar, sem telur átta þætti, ræðir hann við foreldra Arnars þau Jón Aspar og Unni Hermannsdóttur um þessa hörmulegu atburði. Þar rifja þau upp hvernig Sigurður Kárason náði að sannfæra hjónin og Arnar son þeirra um að taka þátt í kaupum á hlutabréfum eftir krókaleiðum sem einungis hann var fær um að komast.

Þetta var á árunum í kringum bankahrunið þar sem mikið gekk á í viðskiptalífinu. Sigurður náði að mynda sérstaka tengingu við Arnar sem hann nýtti sér til að ná í sífellt meira fé af fjölskyldunni. Þau litu á Sigurð sem vin fjölskyldunnar en eins og rakið er í þáttunum virðist hann hafa verið einstaklega sannfærandi. Svo raunar að Jón, sem starfaði sem sendibílsstjóri, hafði stofnað til nokkurra milljón króna skuld við sinn banka þar sem Sigurður náði ítrekað að svíkja fé út úr fjölskyldunni með þeim formerkjum að með því að reiða út meira fé gætu þau endurheimt það sem lagt hafði verið út.  

Sigurður Kárason mætir fyrir rétt til að svara til saka. …
Sigurður Kárason mætir fyrir rétt til að svara til saka. Á árunum 2006-2010 tókst honum að svíkja á annað hundrað milljónir af fólki. mbl.is/Rósa Braga

Tveggja ára tímabili með þessu mynstri lauk þegar víðtæk rannsókn á málum Sigurðar hófst og þá var haft samband við Æsustaðafjölskylduna. Þegar í ljós kom að svikin gagnvart fjölskyldunni voru einungis lítill angi af svikavef Sigurðar voru vonbrigði Arnars mikil. Hann hafði persónulega sannfært móður sína um að leggja háar upphæðir inn á Sigurð í von um að endurheimta ævisparnað foreldranna. Hann ákvað því að ganga sjálfur í málið og fékk æskuvin sinn, Svein Gest Tryggvason, í lið með sér til að þjarma að Sigurði og fá féð endurgreitt. Tæpar tvær milljónir munu hafa náðst til baka með þessum hætti sem er þó einungis lítið brot af allri upphæðinni sem Sigurður hafði haft af fjölskyldunni. Sveinn Gestur mun hafa átt að fá hluta af þeirri upphæð.

„Þú átt að láta mig hafa peningana frá Sigurði Kárasyni,” öskraði Sveinn Gestur yfir Arnari á meðan barsmíðunum stóð júníkvöldið 2017. Eins og kunnugt er hlaut Sveinn Gestur dóm fyrir þátt sinn í dauða Arnars.

Sveinn Gestur Tryggvason þegar dómur var kveðinn upp í málinu.
Sveinn Gestur Tryggvason þegar dómur var kveðinn upp í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þáttur sem tók á að gera

Sigursteinn segir augljóst að kynni Jóns og Unnar við Sigurð hafi algerlega rústað tilveru hjónanna og að dauði sonar þeirra hafi í raun verið hluti af þeirri atburðarás. Það sem hafi slegið hann mest þegar hann vann að málinu var þegar hjónin á Æsustöðum sögðu honum frá því að Sigurður Kárason hefði nálgast þau og náð að svíkja fé af þeim einungis nokkrum dögum eftir að þau jörðuðu son sinn í júní 2017. „Það sló mig sem alveg ótrúleg ósvífni og bíræfni af hálfu Sigurðar sem, í allri minni vinnu við að skoða mál af þessum toga, mér finnst ég ekki hafa séð áður.” Þátturinn hafi haft meiri áhrif á hann sjálfan en önnur mál sem hann hefur fengist við í hlaðvarpinu.  

DV fjallar um fjármál Sigurðar Kárasonar árið 1986. Á myndinni …
DV fjallar um fjármál Sigurðar Kárasonar árið 1986. Á myndinni má sjá hann á kappaksturbrautinni í tívolíinu í Hveragerði. Fjármál Sigurðar hafa reglulega verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Nú síðast er sögu hans gerð góð skil í þættinum Ekkjusvikarinn í seríu Sigursteins á Storytel. Skjáskot af timarit.is

En hvernig skyldi fólk bregðast við þegar verið er að rifja upp mál með þessum hætti. Hvernig bregst fólk við?

„Í langflestum tilfellum þá tekur fólk því vel. Bæði á það við um þá sem tengjast sakborningum eða sakborningarnir sjálfir eða þolendur. Ég held að þegar frá líður þá vilji fólk oft fá svona ítarlega, heilsteypta og sanna umfjöllun,” svarar Sigursteinn í símann en hann er staddur á sunnarlega á Spáni þar sem hann vinnur að næstu þáttum. Í mörgum tilfellum sé um að ræða mál þar sem atburðarásin er hröð og fær mikla athygli í fjölmiðlum á meðan þar sem kappið er oft mikið. Fólk hafi gengið í gegnum það ferli og þau áföll sem hafi dunið á. „Svo þegar maður nokkrum árum eða jafnvel áratugum síðar ætlar að rifja upp málið þá tekur fólk því yfirleitt vel,” segir Sigursteinn og leggur áherslu á að alltaf sé lagt upp með að annaðhvort bæta einhverju við málið. Hvort sem það séu nýjar upplýsingar eða að vekja athygli á einhverju sem honum finnst merkilegt.

Þó hafi viðkomandi í einhverjum tilfellum lagst alfarið gegn umfjöllun. „Ef málið er það viðkvæmt og það þjónar ekki neinum sérstökum tilgangi að fjalla um það og aðstandendur eru þess alfarið mótfallnir. Þá yfirleitt bara tek ég tillit til þess,” segir Sigursteinn en á endanum skipti mestu máli hvort honum finnist að málið eigi erindi við almenning.

Þættirnir eru aðgengilegir á Storytel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert