Hægt væri að byrja að nýta hunda við að þefa uppi Kórónuveiruna hér á landi innan fárra mánaða ef ákvörðun væri tekin um það. Þetta segir hundaþjálfarinn Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir sem m.a. hefur þjálfað hunda í mygluleit. Hún er sannfærð um gagnsemi ferfætlinganna við að leita uppi veiruna.
Fréttir af notkun hunda á flugvöllum í Finnlandi þar sem þeir þefa uppi veiru hjá komufarþegum til Helsinki hafa vakið töluverða athygli. Anna Hielm-Bjorkman, vísindamaður hjá Háskólanum í Helsinki fer fyrir rannsóknarverkefninu og hún fullyrðir að þjálfun hunda til að þefa veiruna uppi sé augljós valkostur í heimsfaraldrinum. Fjallað var um málið á mbl.is í gær.
„Mér finnst ekki spurning að þetta sé eitthvað sem ætti að skoða vel,” segir Jóhanna en fyrir ári síðan var fjallað um mygluleitarhundinn Hanz hér á mbl.is sem Jóhanna þjálfaði. Hún gerir ráð fyrir að það þyrfti ekki að taka lengri tíma en tvo til þrjá mánuði að hrinda verkefninu í framkvæmd. „Til þess þyrfti að setja saman lítið teymi vísindamanna og sérfræðinga ásamt hundaþjálfaranum,“ segir Jóhanna og segist jafnframt vita af hundum sem séu ákjósanlegir í verkefnið.
Í Finnlandi skima hundarnir komufarþega en Jóhanna segir það einungis eitt hlutverk sem þeir gætu sinnt. „Þeir gætu nýst í verslunarkjörnum eða fjölförnum stöðum. Ekki síst til að fara yfir yfirborsðfleti og tryggja að þeir séu veirulausir.“
Verið er að undirbúa hunda víða um heim í þeim tilgangi að auðvelda fólki lífið með Kórónuveirunni. Í Brasilíu, Argentínu, Belgíu og Sameinaða Arabíska furstadæminu.
Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá schaeffer-hundinn Hanz þefa uppi myglu fyrir Jóhönnu.