Katrín Jakobsdóttir forsætisrárðherra samgleðst Khedr-fjölskyldunni egypsku sem veitt var dvalarleyfi í gær af mannúðarsjónarmiðum. Hún segir það skiljanlegt að einstaka mál af þessum toga séu rædd úti í samfélaginu en að hlutverk stjórnmálamanna sé fyrst og fremst að skoða kerfið í heild sinni.
Hún segir einnig mikilvægt að rýnt sé í orsakir þess að heildardvalartími hælisleitenda geti dregist líkt og í máli Kehdr-fjölskyldunnar óháð því hversu langur málsmeðferðartíminn er.
„Ég samgleðst auðvitað fjölskyldunni vegna þeirra gleðitíðinda sem henni bárust í gær,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. Hún segir að lærdóm megi draga af öllum málum og nú þurfi mögulega að rýna í það hvers vegna heildardvalatími hælisleitenda geti verið jafnlangur og raun bar vitni í þessu máli.
„Markmið núgildandi útlendingalaga er að gæta að mannúð og skilvirkni og þess vegna er mikilvægt að rýnt verði ofan í orsakir þess að heildardvalatími hælisleitenda hér á landi geti reynst jafnlangur og sést hefur. Gildir þá einu hvað málsmeðferðartíminn var langur.“
Katrín minnir á að núgildandi útlendingalög voru samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi og vísar í styttingu málsmeðferðatíma í málefnum þar sem börn koma við sögu. Til þess að hægt sé að veita fólki hæli á grundvelli mannúðarsjónarmiða þegar börn koma við sögu verði málsmeðferðartími, frá umsókn um hæli og þar til kærunefnd útlendingamála kemst að niðurstöðu, að vera minni en 16 mánuðir.
„Það er mikilvægt að þessi mál séu skoðuð, hvað hefur reynst ágætlega og hvað má bæta,“ segir Katrín.
Líkt og áður hefur komið fram fékk Khedr-fjölskyldan dvalarleyfi hér á landi í gær eftir að kærunefnd útlendingamála samþykkti beiðni fjölskyldunnar um frestun réttaráhrifa. Ákveðið hafði verið að vísa fjölskyldunni úr landi þann 16. september síðastliðinn.
Hins vegar var fjölskyldan ekki á dvalarstað sínum þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem sér um að framkvæma brottvísanir úr landi, bar að garði. Málið vakti gríðarlega reiði víða í samfélaginu og þótti mörgum ómannúðlegt að vísa fjölskyldunni úr landi þar sem hún hafði búið hér í um tvö ár.