Lífið heldur áfram hjá fjölskyldunni

Börnin í fjölskyldunni eru fjögur. Vísa átti þeim úr landi …
Börnin í fjölskyldunni eru fjögur. Vísa átti þeim úr landi 16. september. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

„Það sem kærunefnd útlendingamála gerir í gær, er að hún samþykkir að endurskoða málið og líta þá til þeirrar hættu sem við höfum bent á, af kynfæralimlestingum í Egyptalandi. Og með þeirri ákvörðun, að taka málið upp að nýju, þá lengist málsmeðferðartíminn allt í einu í rúm tvö ár. Þá um leið eru uppfyllt skilyrði til að veita fjölskyldunni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“

Þetta segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður egypsku Khedr-fjölskyldunnar, sem fékk í gær eins og áður sagði dvalarleyfi á Íslandi eftir að hafa verið á Íslandi í rúmlega tvö ár.

Á undan höfðu gengið hávær mótmæli í samfélaginu, en í fjölskyldunni eru fjögur börn sem gengið höfðu í skóla hér á landi og meðal annars byrjað að læra íslenskt mál, áður en vísa átti þeim úr landi 16. september.

Hefði unnist fyrir dómi

Í samtali við mbl.is greinir Magnús frá því að mál fjölskyldunnar hafi verið komið á borð Héraðsdóms Reykjavíkur áður en þessar málalyktir urðu. Þar hafi málið þegar verið þingfest og því beint til ríkisins að skila greinargerð fyrir 9. október.

Hann segist sannfærður um að málið hefði unnist fyrir dómi, hefði sú leið verið farin.

„Fyrir dómi hefði reynt á málið í heild sinni, og við höfum haldið því fram að í því séu margvísleg málsmeðferðarbrot,“ segir hann og bætir við að fyrst og fremst hafi verið fundið að því, að ekki hafi farið fram sjálfstætt og heildstætt mat á hagsmunum barnanna fjögurra.

„Þar að auki er ljóst að stjórnvöldum var kunnugt um hættuna á kynfæralimlestingum í Egyptalandi, en þau höfðu kosið að kanna ekki þann þátt í þessu máli. Dómstóllinn hefði þurft að líta til þess.“

Brottvísun fjölskyldunnar var mótmælt á Austurvelli.
Brottvísun fjölskyldunnar var mótmælt á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Draga megi lærdóm af málinu

Magnús segir það ólíðandi, að þannig aðstæður myndist að erlend börn aðlagist hér á Íslandi og séu svo rifin upp með rótum með lögregluvaldi. Stjórnvöld megi draga mikinn lærdóm af máli Khedr-fjölskyldunnar.

„Ef það hefði farið fram, eins og ég segi, fullnægjandi og heildstætt mat á hagsmunum barnanna strax í upphafi – ef það hefði verið rétt staðið að því, þá hefði þessi staða ekki komið upp,“ segir hann.

„Við vonumst til að þetta verði til þess að stjórnvöld hugi betur að börnum á flótta, og að það verði í framtíðinni staðið með fagmannlegum hætti að mati á hagsmunum barna í málum sem þessum.“

Eðlilegt að þrýstingur almennings hafi áhrif

Ákvörðun stjórnvalda um brottvísun fjölskyldunnar úr landi varð tilefni mótmæla á Austurvelli. Spurður hvort sá þrýstingur sem skapaðist í samfélaginu hafi skipt máli, kveður Magnús já við.

„Við búum í lýðræðissamfélagi og það er eðlilegt að þrýstingur frá almenningi hafi áhrif. Þegar stjórnvöld bregðast með einhverjum hætti þá höfum við þennan ventil til að grípa til. Oft er talað um fjölmiðla sem fjórða ríkisvaldið og þarna er það að virka með óbeinum hætti.“

Börnin aftur í skólann í dag eða á mánudag

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.

Þegar til stóð að lögregla fylgdi fjölskyldunni úr landi 16. september var fjölskyldan á bak og burt þegar lögreglu bar að dyrum heimilisins.

Spurður hvort málið hefði farið á annan veg, hefði fjölskyldan farið úr landi á þeim tíma, segir Magnús að hann hefði rekið málið áfram og niðurstaðan vafalaust orðið sú sama.

Hins vegar sé ekki víst að fjölskyldan hefði átt afturkvæmt frá Egyptalandi. Þar hafi hún enda, eins og fram hafi komið, verið í hættu.

Og hvað tekur við hjá fjölskyldunni?

„Móðirin er hjúkrunarfræðingur og langar mjög að finna sér starf við hæfi hér á landi. Faðirinn er tæknifræðingur og langar sömuleiðis til að finna vinnu á Íslandi. Krakkarnir fara aftur í skólann í dag og á mánudaginn. Lífið heldur áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert