Ekki ástæða til að herða aðgerðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Ekki þykir ástæða til þess að herða sóttvarnaraðgerðir innanlands í ljósi þeirra kórónuveirusmita sem greindust í gær. Sóttvarnalæknir segir að veiran sé í línulegum vexti og bregðast þurfi við ef veiran tekur veldisvexti. Næstu dagar muni skera úr um hvort svo sé.

„Við teljum ekki þörf á að tölurnar sem birtust í dag breyti neinu varðandi aðgerðir hér innalands í sjálfu sér. Við erum enn að sjá þennan línulega vöxt og það verður bara að ráðast núna um helgina hvort veiran sé í einhverjum veldisvexti. Ef svo er þá þykir mér líklegt að gripið verði til aðgerða,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is, en enginn upplýsingafundur verður haldinn í dag vegna veirunnar. 

Aldrei meiri sýnataka

Hann segir einnig að sýnataka hafi verið umfangsmikil undanfarna daga og með því mesta sem sést hafi frá upphafi faraldursins. Flestir sem greindust í gær hafi verið með einkenni.

„Það er búið að vera að taka mikið af sýnum undanfarið og eiginlega aldrei verið tekin fleiri sýni. Flestir af þeim sem eru að greinast eru með einkenni en samt sem áður eru ekki nema 2% einkennasýna sem sýna fram á kórónuveirusmit. Það segir okkur það að fólk sé mikið með einkenni einhvers annars en kórónuveiru.“

Frá sýnatöku á Landspítalanum.
Frá sýnatöku á Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítali

Samstarf væri jákvætt                                                       

Í fréttum mbl.is frá í gær var greint frá því að heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hyggðist ræða við aðra heilbrigðisráðherra á Norðurlöndunum um einstaklingsvottanir sem sönnuðu að viðkomandi hafi greinst með kórónuveiruna. Slík vottorð eru gefin út hér á landi og getur veitt fólki ferðafrelsi í þeim löndum þar sem slík vottorð eru samþykkt.

„Það eru mismunandi hópar hér innanlands sem eru að vinna að gerð svona vottorða. Þau eru auðvitað gefin út til þeirra einstaklinga hérlendis sem greinst hafa með kórónuveiruna,“ segir Þórólfur.

„Ef það væri komið á einhverju samstarfi um þessi mál þá væri það auðvitað bara jákvætt.“

Þórólfur segir þó að margt beri að varast í þessum efnum.

„Það hefur borið á því að fólk sé með einhverjum hætti að falsa þessi vottorð til þess að geta ferðast milli landa. Það þarf þá að vera skýrt utanumhald í kringum það. Eins er líka óvíst með ágæti sýnatöku víðs vegar um heiminn þannig að það þyrfti að liggja fyrir að kórónuveirupróf sem viðkomandi gekkst undir hafi verið nægjanlega marktækt.“

Frá fundi almannavarna fyrr í vikunni.
Frá fundi almannavarna fyrr í vikunni. Ljósmynd/Lögreglan

Persónubundnar sóttvarnir enn mikilvægar

Spurður út í frétt sem birtist í The Telegraph, þar sem fram kemur að kórónuveiran gæti verið að stökkbreytast á þá leið að andlitsgrímur og handþvottur beri ekki lengur árangur, segir Þórólfur að enginn virtur aðili hafi talað um slíkt.

„Persónubundnar sóttvarnir eru mjög mikilvægar eins og hefur verið sannað, en það er ekki sama hvernig að þeim er staðið. Handþvottur verður að vera reglulegur og nægilega góður til þess að koma í veg fyrir smit. Einnig er mikilvægt að andlitsgrímur séu rétt notaðar og við réttar aðstæður,“ segir Þórólfur.

„Ég hef ekki heyrt neinn virtan aðila tala á þá leið að veiran sé að stökkbreytast með þeim hætti að þessar persónubundnu sóttvarnir sem við höfum brýnt beri ekki lengur árangur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka