Ósanngjarnt að skella skuldinni á Frakkana

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafnar því að tveir franskir ferðamenn, sem sagðir eru hafa brotið sóttvarnareglur hérlendis, séu ábyrgir fyrir þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins hérlendis. 

Frönsku ferðamönnunum hefur víða verið kennt um fjölda smita hérlendis, þar á meðal í dönskum og breskum vefmiðlum. Flest veirusmit sem hafa greinst hérlendis undanfarið hafa verið af sama afbrigði kórónuveirunnar og afbrigðið sem greindist í frönsku ferðamönnunum sem komu til landsins í ágúst. 

Tekur ekki þátt í slíku

Vísir greindi frá því í vikunni að ferðamennirnir hefðu brotið sóttvarnareglur. Það eina sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir gaf uppi um það var að það hefði verið erfitt að fá ferðamennina til að fylgja reglum. Hann hefur ekki staðfest að ferðamennirnir hafi brotið reglur. 

Í svari við fyrirspurn RÚV til ríkislögreglustjóra kom fram að afskipti hafi verið höfð af ferðamönnunum þegar þeir fylgdu ekki sóttvarnaráðstöfunum til hins ítrasta. Hafi það verið vegna vankunnáttu og voru þeir ekki sektaðir. 

„Sú kenning að þeir hafi rofið einangrun er ekki studd með neinum gögnum,“ segir Kári í samtali við AFP. Hann segir ósanngjarnt að skella skuldinni á Frakkana, það eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og hann muni ekki taka þátt í slíku. 

„Það er hugsanlegt og jafnvel líklegra að það hafi verið aðrir í flugvél þeirra sem voru sýktir en að veiran hjá þeim hafi ekki greinst við landamæraskimun.“ 

Þórólfur sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni ranga nálgun að rekja smitin til einstakra ferðamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert