Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata, segir að það sé ekki rétt hjá Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, að samstaða hafi verið í forsætisnefnd borgarstjórnar um að Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hafi gengið of langt með ummælum sínum á borgarstjórnarfundi 15. september.
Aukafundur forsætisnefndar fór fram í gær þar sem ummæli Dóru Bjartar í garð Eyþórs Arnalds, oddvita Sjáfstæðisflokks, voru rædd. Bókun var gerð í lok fundar sem fulltrúar allra flokka tóku þátt í, sem kvað á um að borgarfulltrúar skuli gæta sanngirni í orðum sínum. Marta túlkaði það sem svo að þarna væru fulltrúar allra flokka að sammælast um að Dóra hefði gengið of langt. Alexandra segir þá túlkun alranga.
„Það hefur verið mikil harka í borgarstjórn síðustu tvö ár og hafa fulltrúar minnihlutans látið hin ýmsu ummæli falla um aðra borgarfulltrúa og jafnvel starfsmenn borgarstjórnar. Þátttaka mín í bókun forsætisnefndar var almenns eðlis þar sem ég trúði því að verið væri að bóka almennt um samskipti borgarfulltrúa og að þau skyldi bæta.
Ég var hreint ekki að taka þátt í því að bóka um að Dóra hafi gengið of langt. Þvert á móti tel ég fyrirspurn hennar eðlilega og eitthvað sem á erindi við almenning,“ segir Alexandra í samtali við mbl.is
Dóra Björt hafði meðal annars orð á því að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hafi fengið hundurðir milljóna að gjöf frá Samherja til kaupa á hlut í Morgublaðinu. Einnig sagði hún að í ljós hefði komið að Samherji hafi stæði á bakvið byggingu nýs miðbæjar á Selfossi, sem Eyþór hefði verið um árabil talsmaður fyrir. Það gæti verið „ein ástæða þess að Samherji hefði gefið Eyþóri svo drjúga gjöf sem stór hluti í Morgunblaðinu er.“
„Mér finnst þetta sanna það að það geti verið erfitt að vinna með sumu fólki. Það er ekki fyrr komið út af þessum fundi þar til að farið er að snúa út úr þeim vilja mínum að bæta samskiptin innan borgarstjórnar með þátttöku minni í þessari bóku,“ bætir hún við.
Alexandra skrifaði um sína hlið málsins á facebooksíðu sinni nú síðdegis þar sem hún rekur af hverju henni þótti túlkun Mörtu á þátttöku sinni í bókun forsætisnefndar röng.