Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fór hörðum orðum um ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, í setningarræðu flokksráðsfundar Miðflokksins í dag, og sagði ríkisstjórninni stýrt af kerfinu, hún stjórni því ekki. Hann sagði að „báknið“ hafi blásið út sem aldrei fyrr en að þjónusta við almenning hafi ekki batnað.
Sagði hann Miðflokkinn ætla að taka á þeim hindrunum sem kerfið setji fyrir almenning. Hann sagði Vinstri græn og Samfylkingu hafa skipt um hlutverk á hinum pólitíska ás og hafa gleymt sínum gömlu gildum í leiðinni. Um Sjálfstæðisflokk sagði Sigmundur: „Blessuð sé minning hans.“
„Heimsfaraldurinn sem við stöndum frammi fyrir hefur haft alveg gríðarleg áhrif, ekki bara heilsufarsleg og efnahagsleg heldur líka samfélagsleg,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins í upphafi ræðu sinnar. Mörg þau pólitísku mál sem stjórnvöld hafi staðið frammi fyrir áður en að faraldurinn hófst hafi legið í dvala. Þau þoli mörg hver enga bið.
Sigmundur tók dæmi um samgöngumál, umhverfismál, málefni eldri borgara og skýrslu ríkislögreglustjóra um aukningu skipulagðrar glæpastarfsemi. Hann sagði að ríkisstjórn hafi ekki sýnt vilja til þess að taka á þessum málaflokkum og útskýrði síðan af hverju svo væri.
„Til að skýra það verð ég aðeins að ræða eðli ríkisstjórnarinnar. Það er óhjákvæmilegt að ræða ríkisstjórnina og flokkana sem mynda hana til að við áttum okkur betur á því hvar við stöndum, hvers vegna staðan er þessi og hvers kunni að vera að vænta í framhaldinu,“ sagði Sigmundur.
„Ríkisstjórnin er mynduð um ráðherrastóla, fyrst og fremst. Að skipta þeim milli flokkanna. Ráðherrar flokkanna meira að segja lýstu því yfir að þetta væri ekki stjórn sem ætti að snúast um stór pólitísk markmið heldur það sem þau kölluðu stöðugleika.“
„Hver er afleiðingin? Afleiðingin er auðvitað sú að kerfið stjórnar og vald þess hefur aldrei verið meira en nú. Framsóknarmenn ráða hins vegar bara framsóknarmenn inn í kerfið.“
„VG og Samfylking virðast vera búin að skiptast á hlutverkum. VG er að verða kerfisflokkurinn, nokkurs konar teknókratar, á meðan Samfylkingin minnir sífellt meira á byltingarsinnaða sósíalista.
En það versta við þessi hlutverkaskipti flokkanna er, að þar gleymdust bæði gömlu góðu alþýðubandalagsmennirnir, sem lögðu áherslu á atvinnusköpun og kjarabætur verkafólks, og gömlu góðu samfélagssinnuðu kratarnir, sem vissu að velferðarsamfélagið þyrfti að byggja á borgaralegum gildum. Þessir hópar þessara flokka hafa algjörlega týnst.“
„Svo er það Sjálfstæðisflokkurinn. Blessuð sé minning hans.“
„Nokkrir þingmenn flokksins hafa orðað það nokkurn veginn þannig að þeir fái velgju og jafnvel uppköst yfir ýmsum málum ríkisstjórnarinnar, en þurfi bara að kyngja.“
Sigmundur sagði einnig að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um það að fella allar þær úrbótatillögur sem koma frá minnihlutanum og sagði að það gangi í berhögg við þau orð stjórnarsáttmálans sem kveði á um eflingu Alþingis. Ríkisstjórnin hafi verið efld með sífelldum ráðningum nýrra aðstoðarmanna og starfsmanna en Alþingi hafi setið á hakanum.
„Frá upphafi faraldursins höfum við í Miðflokknum lagt fram okkar tillögur, okkar lausnir. Lausnir sem eiga það sameiginlegt að vera einfaldar og víðfeðmar. Meðal þessara stórtæku og almennu aðgerða eru lækkun tryggingagjalds, sem er í raun bara skattur á að ráða fólk í vinnu, og afskaplega neikvæður skattur, sérstaklega við núverandi aðstæður. Við höfum líka lagt fram tillögur um hvernig hægt sé að gera skattkerfið meira hvetjandi.“
Þá sagði Sigmundur að líkur séu á að lífskjarasamningnum verði sagt upp. „Sama dag og þing kemur aftur saman, 1. október eru verulegar líkur á að kjarasamningum verði sagt upp.“