Þótt fimm ár séu liðin frá því að Hæstiréttur dæmdi að meta skyldi vatnsréttindi Jökulsár á Dal til fasteignamats hefur öðrum sveitarfélögum ekki tekist að fá mat á vatnsréttindum eða jarðhitaréttindum virkjana. Ýmis fleiri ágreiningsmál sveitarfélaga og orkufyrirtækja eru fyrir úrskurðarnefndum og jafnvel dómstólum. Nýlega samþykkti yfirskattanefnd kröfu Húnavatnshrepps um að greiða beri hærri fasteignaskatt af starfsmannahúsi Blönduvirkjunar.
Í lögum um skráningu og mat fasteigna eru ákvæði um undanþágu ýmissa eigna ríkis og sveitarfélaga sem almennt eru notaðar í þágu samfélagsins. Þar eru meðal annars nefndar rafveitur, línur og spennistöðvar. Hins vegar skuli meta eftir venjulegum reglum hús sem reist eru yfir aflstöðvar.
Þetta hefur verið framkvæmt þannig að stöðvarhús hafa verið metin að hluta, sleppt er þeim hluta þar sem hverflarnir eru og þar fyrir neðan. Önnur hús eru metin. Hins vegar hafa stíflur, varnargarðar og vatnsréttindi ekki verið metin. Ekki heldur jarðhitaréttindi stórra jarðvarmavirkjana. Sveitarfélögin geta því ekki lagt fasteignagjöld á nema hluta stöðvarhúsa.
Þetta hefur valdið óánægju sveitarfélaga. Undanþágan er talin arfur frá þeim tíma sem ríkið átti allar stærri virkjanir. Nú séu ýmsir aðrir að virkja. Dæmi um afleiðingar undanþágunnar er að stór hluti jarðrasks og afleiðinga Kárahnjúkavirkjunar varð í Fljótsdalshéraði og lengi vel fékk sveitarfélagið litlar sem engar tekjur af þeim mannvirkjum en stöðvarhúsið var reist í Fljótsdalshreppi og hefur sá fámenni hreppur fitnað vel á fasteignagjöldum. Raunar fór Fljótsdalshérað í mál við Þjóðskrá og Landsvirkjun og fékk því framgengt með dómi Hæstaréttar að vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar í Jökulsá á Dal voru metin til fasteignamats. Heildarmat vatnsréttinda reyndist 2,5 milljarðar sem þýðir að sveitarfélögin fá á annan tug milljóna í fasteignaskatt á ári. Þrátt fyrir að fimm ár séu liðin frá því dómur féll í Hæstarétti hefur öðrum sveitarfélögum ekki tekist að fá fasteignamat á vatnsréttindi. Ekki fengust skýringar hjá Þjóðskrá Íslands í gær þótt eftir væri leitað. Málið mun þó enn vera í vinnslu, meðal annars í samvinnu við sveitarfélögin.
Vindmyllur eru metnar á hliðstæðan hátt og aflstöðvar, aðeins lítill hluti af raunverulegum byggingarkostnaði er metinn til fasteignamats. Skeiða- og Gnúpverjahreppur náði ekki fram breytingu á því vegna tilraunamylla Landsvirkjunar við Búrfell.
Húnavatnshreppur og Landsvirkjun tókust nýlega á um hvort starfsmannahús við Blönduvirkjun ætti að teljast íbúðarhús eða önnur fasteign, í skilningi laga um skráningu og mat fasteigna. Húsið hafði verið skráð að hluta sem íbúðarhúsnæði. Ekki er lengur föst búseta starfsmanna við Blönduvirkjun en húsnæðið er notað þegar þeir dvelja þar. Yfirskattanefnd féllst á þau rök að starfsmannahúsið fullnægði ekki kröfum sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis. Húnavatnshreppur getur því lagt hærri fasteignaskatta á húsið en áður og skilar það hreppnum um 3,5 milljónum á ári.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september.