Nýsköpunarmiðstöð verði lögð niður

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamálaráðherra hefur kynnt frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun í Samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu eru lagðar til talsverðar breytingar á opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. 

Í frumvarpinu felast áform um að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verður lögð niður, stofnaðir verða Nýsköpunargarðar með áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni verða aukin og nýr sjóður settur á fót fyrir rannsóknir í byggingariðnaði.

Gert ráð fyrir endurskoðun tveimur árum eftir stofnun 2007

„Með frumvarpinu erum við að forgangsraða verkefnum í þágu nýsköpunarumhverfisins í takti við Nýsköpunarstefnu. Umhverfi nýsköpunar á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum og frumvarpið tekur mið af því. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem ber að þakka en undanfarna mánuði höfum við unnið að því að endurskoða hlutverk stofnunarinnar og fundið hluta verkefna hennar nýtt heimili á meðan önnur verkefni verða færð til eða hætt. Það er eðlileg þróun í jafn kviku umhverfi og nýsköpunarumhverfið á Íslandi á að vera,” er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra í tilkynningu. 

Þegar Nýsköpunarmiðstöð var stofnuð árið 2007 var gert ráð fyrir að stofnunin yrði endurskoðuð tveimur árum síðar. Slík endurskoðun hefur ekki átt sér stað fyrr en nú en bæði stjórnvöld og hagaðilar hafa lagt hana til, meðal annars þar sem kveðið var á í lögum um stofnunina að hún skyldi ekki vera í samkeppnisrekstri á markaði.

„Við viljum skerpa á hlutverki og forgangsröðun ríkisins í opinberum stuðningi við nýsköpun og atvinnulíf með því að leggja áherslu á þá starfsemi sem þarf mestan stuðning“ segir ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert