„Ég er ekki sérstaklega spenntur fyrir því að hér sé lögreglan að banka á dyr og kanna hvort fólk sé í sóttkví eða ekki.“ Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, á blaðamannafundi í dag er hann var spurður hvort ástæða væri til að auka eftirlit lögreglu með þeim sem koma hingað til lands.
Var spurningin borin upp í tilefni frétta af erlendum ferðamönnum sem voru gripnir í miðborg Reykjavíkur í gær þegar þeir áttu að vera í sóttkví, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem ferðamenn eru staðnir að því að virða ekki sóttkví.
„Þarf ekki í ljósi þess að herða eftirlit með þeim sem koma hingað til lands,“ spurði fréttamaður RÚV.
„Þetta er mjög mikil grundvallarspurning um í hvernig samfélagi við viljum búa,“ sagði Víðir. „Viljum við búa í samfélagi með mjög miklu lögreglueftirliti eða viljum við búa í samfélagi þar sem við treystum borgurunum?“
Sagði Víðir að einhvers konar millivegur væri þó farinn í aðgerðum lögreglunnar. „Við fylgjum eftir þeim ábendingum sem berast um hugsanleg brot á sóttkví og það er til rammi sem grípur þau mál,“ sagði Víðir.
Ferðamenn, innlendir sem erlendir, sem koma hingað til lands þurfa að fara í skimun við komuna til landsins, fara því næst í 4-6 daga sóttkví og loks í aðra skimun.
Björn Ingi Hrafnsson, Viljanum, sagði starfsfólk í Leifsstöð og lögreglumenn hafa í samtölum við sig kvartað yfir ferðamönnum sem komi hingað til lands en ætli sér ekki í sóttkví. Ferðamenn segðu það sumir beinlínis við komuna til landsins að þeir ætluðu sér aðeins að vera hér í tvo daga - skemur en sóttkví ætti að vara. Spurði hann Víði hvort ætla mætti að slíkt fólk ætlaði sér að verja allri ferðinni í sóttkví.
„Það er erfitt að fullyrða eitthvað um þetta. Ef lögreglumenn sem sinna landamæragæslu telja að einstaklingur muni ekki virða sóttkví þá er reynt að ræða við hann, segja hvaða afleiðingar það hefur í för með sér, og ef þörf krefur, kalla til eftirfylgni frá okkar teymi sem hefur eftirlit með þessum málum,“ sagði Víðir. Ekki væri þó fylgst sérstaklega með lengd ferðar fólks til landsins. „Nei, það er öllum frjálst að koma til landsins ef þeir fylgja leiðbeiningum.“