„Við höfum verið mjög heppin til þessa og þetta er fyrsta smitið sem kemur upp hjá okkur. Þetta var því svolítið áfall,“ segir Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík.
Kennari í skólanum greindist smitaður af kórónuveirunni á mánudagskvöld. Í kjölfarið voru átta starfsmenn og 23 nemendur settir í sóttkví. Af þessum sökum fer öll kennsla í MR fram í fjarnámi út vikuna.
Nemendur í MR hafa verið til helminga í staðkennslu og fjarnámi það sem af er skólaári. Elísabet segir að sú ákvörðun að öll kennsla yrði í fjarnámi út vikuna hafi verið tekin vegna þess að starfsfólk var komið í sóttkví. „Það hefði orðið mikið af gloppum í kennslu og mér fannst þetta ekki ganga vel upp.“
Gangi allt að óskum verða bæði kennarar og nemendur lausir úr sóttkví í vikulokin og kennsla getur hafist aftur með fyrri hætti á mánudag. „Það hafa allir staðið sig mjög vel í sóttvörnum og við vonumst til að þetta muni ganga vel. En það verður áfram kennt bæði í fjarkennslu og staðkennslu enn um sinn.“