Fyrstu íbúar í smáhýsin í nóvember

Fyrstu fimm húsin hafa verið sett upp í Gufunesi og …
Fyrstu fimm húsin hafa verið sett upp í Gufunesi og verða tekin í notkun á næstunni. mbl.is/Árni Sæberg

Unnið er að undirbúningi þess að fyrstu íbúar geti flutt inn í fimm smáhýsi sem sett hafa verið upp í Gufunesi. Um er að ræða húsnæði fyrir heimilislausa og stefnt er að því að fyrstu íbúar geti komið sér fyrir í nóvember.

Áætlað er að tuttugu slík hús verði sett upp á sjö mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Fimm fyrstu húsin voru flutt upp í Gufunes á dögunum og fimmtán til viðbótar fara á sex aðra mismunandi staði á næstu mánuðum, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

„Við hönnun smáhúsanna var mikið lagt upp úr því að þau væru smekkleg og féllu vel að umhverfi sínu. Hvert þeirra er 30 fermetrar, í öðrum enda þess er stofa og eldhús en opinn svefnkrókur í hinum með góðu skápaplássi. Í miðjunni er baðherbergi og opið anddyri. Úr stofu er gengið út á lítinn pall með skjólvegg. Lögð er áhersla á að umhverfi húsanna verði aðlaðandi, með gróðri og öðrum aðgerðum, og þá verður gætt sérstaklega að lýsingu við húsin,“ segir á vef borgarinnar.

„Smáhúsin eru öruggt húsnæði fyrir einstaklinga með vímuefna- og geðvanda, allan sólarhringinn. Því fylgir að þeir hafa greiðari aðgang að þjónustu og stuðningi. Skilyrði fyrir því að einstaklingur fái smáhúsi úthlutað er að hann sé í virkri þjónustu vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar (VoR). Teymið starfar eftir Húsnæði fyrst-hugmyndafræðinni sem gengur út á að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni þjónustu þvert á kerfi,“ segir þar ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert